Borgar sig að eiga við bílinn?

Rækilega puntaður japanskur bíll. Sumar breytingar torvelda endursölu.
Rækilega puntaður japanskur bíll. Sumar breytingar torvelda endursölu. AFP

Oft tengist fólk bílnum sínum sterkum tilfinningaböndum og sumum finnst fátt skemmtilegra en að nostra við ökutækið, breyta því og bæta.

Límmiðar, filmur, vindskeiðar, vígalegra loftinntak, fallegri felgur, púströr með sportlegra hljóði – allt getur þetta gert bílinn enn flottari en þar með er ekki sagt að auðveldara verði að selja bílinn þegar þar að kemur, eða að breytingarnar skili sér í hærra verði.

Indriði Jónsson, eigandi Höfðahallarinnar, segir það einkum filmur á rúðum og sérpantaðar álfelgur sem auðveldi sölu og skili sér jafnvel í hærra verði. „En það gildir um sumar tegundir að þær seljast betur án allra breytinga. Ford Mustang er gott dæmi um þetta og virðist sem fólk vilji helst kaupa bílinn í upprunalegu formi svo það geti einmitt sjálft fengið að skreyta ökutækið í samræmi við sinn persónulega smekk.“

Mikilvægast er, að sögn Indriða, að fara vel með bílinn, sinna skoðunum og reglubundnu viðhaldi samviskusamlega. „Þegar kemur að sölu ætti að reyna að hafa bílinn eins hreinan og kostur er, bæði að innan og utan, og laga hvers kyns smáskemmdir og tjón til að auðvelda söluna,“ segir hann og minnir á að ef mikil sígarettulykt er í bílum geti orðið þrautin þyngri að selja þá.

En hvað með að velja áberandi lit á bílinn eða innréttinguna? Hjálpar það til þegar bílar skera sig úr fjöldanum á planinu? Indriði segir hvíta og gráa tóna áberandi í bílaflota Íslendinga en notuð ökutæki í meira afgerandi litum geti selst ágætlega. „Það eru þá helst litir á borð við gulan og appelsínugulan, bleikan og skærgrænan sem kunna að flækja endursölu.“

Hver vill gulan Mercedes-Benz?

Kolbeinn Blandon, eigandi bílasölunnar Diesel, tekur í sama streng og kvartar yfir því að landsmenn séu helst til íhaldssamir þegar kemur að því að velja liti á nýja bíla, einmitt vegna þess að þeir óttast að afgerandi litir torveldi endursölu. „Rót vandans eru þeir starfsmenn bílaumboðanna sem sjá um að panta inn en þeir eru logandi hræddir við að taka inn bíla í öðru en allra vinsælustu litunum haldandi að neytendur muni hugsa akkúrat svona. Aftur á móti sjáum við það þegar kemur að sölu innfluttra bíla sem eru kannski tveggja eða þriggja ára gamlir, þá vekja flottar og afgerandi litasamsetningar mikinn áhuga.“

Kolbeinn bendir á að það fari eftir bíltegundinni hvort fólk geti leyft sér að vera djarfara í litvali. „Þeir sem eru á bíl sem mikið er til af þurfa ekki að vera eins hræddir við að velja afgerandi lit, en þegar kemur að dýrari bílum sem lítið er til af í landinu er tekin meiri áhætta með óhefðbundnu litavali. Hver vill t.d. keyra um á gulum Mercedes-Benz?“

Ef búið er að eiga heilmikið við bílinn segir Kolbeinn ekki endilega til bóta að fjarlægja viðbætur og skraut fyrir sölu. „Fólk fær kannski ekki til baka þann pening sem búið er að leggja í að fegra ökutækið, en með smá heppni gæti tekist að hitta á rétta kaupandann,“ segir hann. „Umfram allt ætti að gæta að reglulegum skoðunum og þjónustu, og helst fara með bílinn í ástandsskoðun fyrir sölu, láta ástandsskoðunargögnin fylgja með og skjalfesta hvað hefur verið lagað. Ef bíllinn er einnig vel dekkjaður er seljandi í góðum málum.“

Indriði Jónsson.
Indriði Jónsson.
Kolbeinn Blandon.
Kolbeinn Blandon.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »