Verðlauna Hyundai fyrir samgönguhugmyndir

Hyundai HDC-6 Neptune flutningabíllinn.
Hyundai HDC-6 Neptune flutningabíllinn.

Hyundaihlaut  tvenn verðlaun fyrir hugmyndir sínar á sviði framtíðarsamgangna á verðlaunahátíð Future Mobility of the Year sem fram fór í Seol í Kóreu í lok júlí.

Annars vegar hlaut Hyundai verðlaun fyrir vetnisknúna flutningabílinn Neprúnus og hins vegar rafknúna hlaupahjólið e-Scooter sem Hyundai veltir fyrir sér að bjóða með öllum nýjum fólksbílum fyrirtækisins.

Hönnun vetnisknúna flutningabílsins HDC-6 Neptune, sem var kynntur á bandarísku atvinnubílasýningunni í nóvember 2019, sækir innblástur sinn til hinna fornfrægu farþega- og vöruflutningalesta Bandaríkjanna.

Er hugmynd Hyundai með Neptúnus að innleiða mengunarlausan flutningamáta þar sem flutt er mikið vörumagn um langan veg eins og raunin er í Norður-Ameríku.

Hyundai vinnur að þróttmiklu verkefni á sviði vetnisknúinna samgangna og er t.d. um þessar mundir í samstarfi við aðila í Sviss um innleiðingu tæplega tvö þúsund vetnisknúinna vöruflutningabíla sem eiga að vera komnir í rekstur 2025. Hyundai hefur þegar sent fyrstu tíu bílana til Sviss, en þeir eru jafnframt fyrstu fjöldaframleiddu flutningabílar heims knúnir með vetni.

Rafskutlan e-Scooter

Rafskutlan Hyundai e-Scooter.
Rafskutlan Hyundai e-Scooter.


Rafskutluna e-Scooter kynnti Hyundai hins vegar fyrst á CES-tæknisýningunni í Las Vegas 2017. Hugmyndin með henni er að bjóða létt, samanbrjótanlegt og rafknúið hlaupahjól með 20 km drægi með öllum nýjum fólksbílum Hyundai. Verður sérstaklega gert ráð fyrir hjólinu í innréttingunni bílanna þar sem því verður stungið í samband við hleðslu milli notkana.

Hyundai hugsar skutluna fyrst og fremst til notkunar á „síðasta spottanum“ á leið á áfangastað. Þannig geti ökumaður t.d. lagt bílnum fjær vinnustað eða verslunar og farið síðasta spölinn á skutlunni, að því er segir í tilkynningu.

mbl.is