Tengiltvinnbíllinn vinsælastur annan mánuðinn í röð

MG Zs Ev er nýr bíll í flóru BL.
MG Zs Ev er nýr bíll í flóru BL.

Í júlí voru nýskráðir 1.547 fólks- og sendibílar hér á landi. Enda þótt nýskráningarnar fyrstu sjö mánuði ársins hafi verið tæplega 32% færri heldur en á sama tímabili 2019 voru þær þó 39% fleiri í júlí síðastliðnum samanborið við sama mánuð síðasta árs.

Skýrist aukningin fyrst og fremst af miklum kippi sem varð í nýskráningum bílaleigubíla í mánuðinum þótt niðurskurður nýskráninga á þeim hluta markaðarins nemi þó rúmlega 59% það sem af er ári borið saman við sama tímabil 2019, segir í tilkynningu frá bílaumboðinu BL.

Af nýskráðum fólks- og sendibílum voru 327 hjá BL sem var með rúmlega 21% markaðshlutdeild í mánuðinum og 22,1% það sem af er ári.  

MG nýr rafbíll hjá BL

Af 327 nýskráðum fólks- og sendibílum hjá BL í júlí voru 58 umhverfismildir, 41 rafbíll og 17 tengiltvinnbílar. Af hreinum rafbílum voru 15 Hyundai Kona og Ioniq og 14 MG ZS EV sem er nýtt merki í bílaflóru BL.

Tengiltvinnbílar voru jafnframt vinsælastir á einstaklingsmarkaði hér á landi í júlí, með um 24,9% hlutdeild og er það annar mánuðurinn í röð sem tengiltvinnbílar eru vinsælasta orkulausnin á einstaklingsmarkaði. Það sem af er ári leiða þó rafmagnsbílar einstaklingsmarkaðinn með 28,6% hlutdeild og næst koma tengiltvinnbílar með 20,8%. Bensínbíllinn kemur þar á eftir með 18,3%.

mbl.is