Helmingur velur rafmagnið

Rafbíllinn Nissan Leaf
Rafbíllinn Nissan Leaf

Það sem af er ári hefur helmingur kaupenda á einstaklingsmarkaði valið sér raf- eða tengiltvinnbíl.

Í september var 1.091 fólks- og sendibíll nýskráður hér á landi, 33,5% fleiri en í sama mánuði 2019 þegar þeir voru 817, samkvæmt upplýsingum frá bílaumbðinu BL, sem hafði umboð fyrir 20% bílanna nýskráðu.

Alls voru 8.009 fólks- og sendibíla nýskráðir fyrstu níu mánuði ársins samanborið við 10.889 í fyrra og er markaðshlutdeild BL 21,5% það sem af er árinu.

Af nýskráðum bílum sem BL hefur umboð fyrir voru 74 hreinir rafbílar, eða 34% nýskráðra bíla hjá fyrirtækinu í mánuðinum, auk 16 tengiltvinnbíla. Alls nam hlutfall nýskráðra umhverfismildra bíla hjá BL 41,2% í september sem er í samræmi við stigvaxandi hlutfall þeirra á landsvísu undanfarin misseri.

Raunar hafa 50% kaupenda á einstaklingsmarkaði valið sér raf- eða tengiltvinnbíl það sem af er árinu. Þeirra á meðal er rafbíllinn MG, en alls hafa um 50 slíkir verið nýskráðir frá því að hann var kynntur í lok júní.

Af 1.091 fólks- og sendibíl sem nýskráður var í september voru 754 skráðir einstaklingum. Af þeim var yfirgnæfandi meirihluti hreinir rafbílar, alls 402 eða 53% fjöldans. Sautján prósent einstaklinga fengu tengiltvinnbíl afhentan og voru raf- og tengiltvinnbílar með 70% einstaklingsmarkaðarins í september. Þetta gríðarháa hlutfall í mánuðinum skýrist einkum af umsöfnuðum biðlista sem greiddist nokkuð úr í september, en allir helstu bílaframleiðendur heims hafa enn ekki náð fullum afköstum á ný eftir ýmist lokanir verksmiðja eða verulega framleiðsluskerðingu sökum heimsfaraldyrsins COVID-19.

Nærri 60% færri nýskráðir bílaleigubílar á árinu

Bílaleigur nýskráðu 96 fólks- og sendibíla í september, 31% færri en í sama mánuði 2019 þegar þeir voru 139.

mbl.is