55,7% sölunnar nýorkubílar

Nýorkubíll, knúinn vetnisrafala.
Nýorkubíll, knúinn vetnisrafala. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Í nóvember seldust 557 nýir fólksbílar í landinu, eða 13,2% færri en í nóvember í fyrra. Heilt yfir árið hefur orðið 23,1% samdráttur á fyrstu 11 mánuðum ársins, eða 8.565 bílar í ár miðað við 11.141 bíl í fyrra.

Helgast þetta fyrst og fremst af minni sölu fyrri hluta ársins og þá aðallega til ferðaþjónustufyrirtækja. Sé eingöngu horft til seinni hluta ársins þá hefur orðið 13,6% söluaukning á því tímabili, samkvæmt upplýsingum frá Bílgreinasambandinu (BGS).

Sala til einstaklinga hefur aukist á árinu um 3,1% á fyrstu 11 mánuðum ársins miðað við sama tímabil í fyrra.

Sala til almennra fyrirtækja (annarra en bílaleigur) hefur einungis dregist saman um 1,8% það sem af er ári.

Í heildina standa nýorkubílar fyrir 55,7% allra seldra nýrra fólksbíla á árinu. Sé eingöngu horft til einstaklinga er þetta hlutfall enn hærra eða 67,6% af öllum seldum nýjum fólksbílum til þeirra.

Nýorkubílar (rafmagns, tengiltvinn, hybrid, metan) eru 55,7% allra seldra nýrra fólksbíla á árinu (rafmagn 24,0%, tengiltvinn 18,3%, hybrid 13,0% og metan 0,4%) en þetta hlutfall var 27,5% á sama tíma á síðasta ári.

Sé horft eingöngu til einstaklinga þá er þetta hlutfall ennþá hærra, eða 67,6% af öllum fólksbílum sem þeir hafa keypt á árinu.

mbl.is