Evrópskir staðlar móta markaðinn

Garðar Skaptason (fyrir miðju) með samstarfsmönnum sínum Vigni Jónassyni og …
Garðar Skaptason (fyrir miðju) með samstarfsmönnum sínum Vigni Jónassyni og Birgi Skaptasyni. Áhugaverð þróun hefur átt sérstað í yfirbyggingum og vörulyftum. Eggert Jóhannesson

Það blasir ekki endilega við hinum almenna vegfaranda en töluverð þróun hefur átt sér stað á sviði yfirbygginga og vörulyfta fyrir flutningabíla. Vinna framleiðendur jafnt og þétt að því að auðvelda vörubílstjórum störf sín, tryggja rétta meðferð á varningi og lágmarka hættuna á slysum.

Garðar Skaptason er framkvæmdastjóri G. Skaptason ehf. en fyrirtækið flutti nýlega rekstur sinn frá Selfossi í Klettagarða 12 í Reykjavík. G. Skaptason er umboðsaðili yfirbyggingaframleiðandans Igloocar, vagnaframleiðandans Sommer og vörulyftuframleiðandans Palfinger. Að auki tók fyrirtækið nýlega við umboðinu fyrir EP palelttutjakka.

Að sögn Garðars hafa Evrópureglur um vöruflutninga mótað markaðinn og leggja flytjendur sig fram við að einangrun og hitastig séu í samræmi við staðla. Hann segir mikið vatn hafa runnið til sjávar frá því þegar algengt var að smíða yfirbyggingar flutningabíla með óeinangruðum krossvið en er vandinn við það efni að hitabreytingar geta valdið rakamyndun sem svo skapar kjöraðstæður fyrir myglu: „Í dag má skipta yfirbyggingum í stórum dráttum í þrjá hópa eftir því hvaða efni er notað: fyrir flutninga á þurrvöru nægir létteinangruð yfirbygging en með henni má losna við daggarútfellinguna. Síðan koma FNA-yfirbyggingar ætlaðar til flutninga á matvöru sem geyma þarf við allt niður að 0°C. Þriðji flokkurinn er svo FRC og eru þá notuð efni sem henta fyrir kælingu allt niður í -25°C.“

Skjalfest og mælt alla leið

Garðar bendir á að íslenskir flutningsaðilar hafi lagt sig fram við að tileinka sér nýjustu lausnir og koma til móts við kröfur markaðarins. Er það enda svo að æ fleiri viðskiptavinir flutningafyrirtækjanna taka ekki annað í mál en að öllum ferlum sé fylgt og hvert skref jafnvel skjalfest. „Er t.d. viðbúið að aðili sem tekur að sér að flytja frystivöru á milli landshluta þurfi að geta framvísað útprentun sem sýni að hitastigið í vörurýminu hafi verið á réttu bili allan tímann,“ segir hann.

Framleiðendur yfirbygginga hafa líka þurft að svara kalli markaðarins eftir sveigjanleika og segir Garðar t.d. henta vel á flutningsleiðum á Íslandi að skipta vörurýminu í þurrvöru- og kælihólf, eða kæli- og frystihólf. „Flutningafyrirtækin vilja yfirbyggingar úr efnum sem eru sterkbyggð en um leið létt og auðveld í þrifum og eru þau efni sem notuð eru í dag þannig gerð að þau eru einföld í umgengni, og þannig gengið frá vörurýminu að auðvelt er að skorða farminn með festingum í gólfi og veggjum.“

Stærri og sterkari vörulyftur

Í vörulyftuframboðinu segir Garðar greinilegustu breytinguna þá að bílstjórar velji öflugri lyftur en áður og með stærra blaði. „Fyrir ekki svo löngu var algengt að 1,5 tonna lyfta yrði fyrir valinu en í dag eru þær oftast með 2 tonna burðargetu og meira. Oftast voru blöðin um 1,8 metrar á lengd hér áður fyrr en núna eru þau um 2,2 metrar og fara jafnvel upp í 2,5 metra,“ útskýrir hann. „Öflugri lyfta þýðir að vörubílstjóri getur afkstað meiru og stærra blað þýðir að hann hefur meira pláss til að athafna sig og að minni halli er á blaðinu þegar það í liggur við jörðu. Þá hafa orðið framfarir í öryggisbúnaði vörulyftanna svo að t.d. blaðið fellur ekki niður ef slanga springur.“

Góður pallettutjakkur er ómissandi í vöruflutningabílum og segir Garðar að þar sé rafmagnið orðið allsráðandi en að gömlu góðu trillurnar sem þurfti að hækka og draga með handafli séu meira eða minna að hverfa af sviðinu. „Í dag eru rafdrifnu pallettutjakkarnir með liþíum-járnrafhlöðu, rétt eins og farsímarnir, hleðsla endist lengur, má hlaða hvenær sem er og þær léttari. Rafmagn knýr bæði gaffalinn á tjakknum og aksturinn. Þetta þýðir að miklu minna álag er á starfsmanninum við að ferma og afferma flutningabíla eða koma pallettum fyrir á vörulager.“

Allt eftir höfði viðskiptavinarins

G. Skaptason á í góðu samstarfi við bílaumboðin og segir Garðar að þar geti kaupendur gengið frá pöntunum á yfirbyggingum og öðrum búnaði nákvæmlega eins og þeir óska þar. „Viðskiptavinir geta líka komið beint til okkar ef þeir vilja,“ segir hann. „Við leggjum okkur fram við að bjóða upp á heildarlausnir í samvinnu við ábyrga framleiðendur. Viðskiptavinurinn einfaldlega finnur það ökutæki sem honum hentar best og velur þær lausnir sem hann er að leita að; vöruvagna, yfirbyggingu, kælibúnað og vörulyftu. Við tökum svo við ökutækinu, göngum frá öllu eins og um var samið og kaupandinn fær ökutækið síðan fullbúið í hendurnar með allt að þriggja ára ábyrgð á yfirbyggingum frá Igloocar- og Palfinger-vörulyftunum.“

Yfirbygging frá Igloocar. Gæði og notagildi batna jafnt og þétt.
Yfirbygging frá Igloocar. Gæði og notagildi batna jafnt og þétt. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: