Nissan eykur bílsmíði í Sunderland

Í bílsmiðju Nissan í Sunderland.
Í bílsmiðju Nissan í Sunderland. AFP

Japanski bílsmiðurinn Nissan ætlar að halda áfram bílsmíði í Bretlandi og jafnvel auka hana. Viðskiptasamningur Breta og Evrópusambandsins tryggir tilvist bílsmiðjunnar í Sunderland til langframa, að sögn BBC.

Þá ætlar Nissan að flytja rafhlöðusmíði til nágrennis Sunderland smiðjunnar sem veitir 6.000 manns vinnu og styður við allt að 70.000 störf í aðfangakeðju sinni.

Nissan hefur flutt rafhlöður rafbílsins Leaf inn frá Japan. Með því að smíða þær í Bretlandi mun það tryggja að bílar Nissan standist kröfur Brexit-samningsins til að komast hjá tollum við útflutning bílanna til ESB-landa verði a.m.k. 55% verðmæti bílanna að hafa orðið til í Bretlandi..

Um 70% bílsmíðinnar í Sunderland hefur verið flutt út til annarra landa, að langmestu leyti til ESB-ríkja.  

Framkvæmdastjóri  Nissan, Ashwani Gupta, segir að Brexitsamningurinn sé jákvæður fyrir Nissan, stærsta bílaframleiðanda Bretlands.

mbl.is