Maserati Ghibli valinn sá besti í Þýsklandi

Maserati Ghibli
Maserati Ghibli

Þjóðverjar telja sig framleiða gæðamestu bíla heims og nægir þá að nefna merki eins og VW, Mercedes-Benz, BMW og Porsche. En köttur komst nýverið í ból bjarnar.

Undir lok nýliðinnar viku var nefnilega ítalski stallbakurinn Maserati Ghibli útnefndur besti bíll ársins í Þýskalandi af hálfu bílaritsins Auto Motor und Sport.

Að baki valinu, sem háð var 45. árið í röð, er atkvæðagreiðsla meðal rúmlega hundrað þúsund áskrifenda blaðsins. Í „pottinum“ voru alls 378 bílar í 11 stærðarflokkum.

Formlega heitir titill flokksins sem Ghibli vann „besti innflutti meðalstóri bíllinn 2021“.

Ghibli er flaggskip Maserati og hafa á annað hundrað þúsund eintaka af bílnum verið seld frá því hann kom fyrst á götuna 2013. Hann mun gegna lykilhlutverki er bílsmiðurinn ítalski hefur rafvæðingu framleiðslubíla sinna.

Í fyrra sendi Maserati frá sér tvinnútgáfu af Ghibli, fyrsta hybrid-bílinn í 106 ára sögu Maserati. Með honum var stigið fyrsta skrefið til rafvæðingar flotans. Slagrými vélarinnar er 2,0 lítrar, hestöflin 330, strokkarnir fjórir og rafmótorinn 48 volt. Hámarkshraði tvinnbílsins er 255 km/klst. og hröðunin úr kyrrstöðu í hundraðið 5,7 sekúndur.

Þá er nú í fyrsta sinn í boði valútgáfa af Ghibli, Trofeo, með V8-vél. Er slagrými hennar 3,8 lítra og 580 hestafla og knýr hún bílinn úr kyrrstöðu í hundraðið á aðeins 4,3 sekúndum. Hámarkshraðinn er 326 km/klst.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: