Stöðugar innkallanir vegna smágalla

Möguleiki var á að bremsupetali rafbílsins Hyundai Kona þyngdist.
Möguleiki var á að bremsupetali rafbílsins Hyundai Kona þyngdist.

Frá nýliðnum áramótum til febrúarloka hafa bílaumboð sjö sinnum innkallað bíla til að lagfæra eitt og annað til að treysta öryggi þeirra, samkvæmt upplýsingum Neytendastofu.

Í vikunni sem nú er að líða innkallaði Bílaumboðið Askja 132 Mercedes-Benz Actros/Atego bifreiðar. Ástæða var sú að möguleiki var á því  að  loftpúðar bílanna virkuðu ekki sem skildi.

Í síðustu viku bárust Neytendastofu tvennar tilkynningar um innköllun. Annars vegar frá Brimborg sem innkalla þurfti 44 Ford Mondeo bifreiðar af árgerð 2014-2016 vegna þess að gæðaeftirlit Ford hafi leitt í ljós að nauðsynlegt er að skipta um bolta sem halda hjálparmótor. Umræddir boltar gætu gefið sig vegna tæringar.

Hins vegar tilkynnti Toyota á íslandi að innkalla þurfi 51 Toyota Proace bifreiðar af árgerð 2016 - 2019 þar sem möguleiki er á að tímareim getur slitnað fyrir áætlaðan líftíma.
 
Í janúar þurfti bílaumboðið BL að innkalla bíla þrisvar sinnum. Í fyrsta lagi  86 Land Rover Discovery Sport MHEV og Range Rover Envoqe MEHV bifreiðar af árgerð 2019 - 2020. Ástæða var möguleiki á yfirálagi á rafkerfi bifreiðanna með þeim afleiðingum að þeir verði rafmagnslausir.
 
Í öðru lagi innkallaði BL 16 Hyundai  OS PE, OS PE HEV/EV, TM PE, PE HEV/PHEV, BC3 og NX4e bifreiðar af árgerð 2020. Ástæðan var möguleiki  á að hugbúnaðarvilla valdi því að skráningarnúmer bílsins sé ekki sent til neyðarþjónustu ef loftpúði spryngur út.

Í þriðja lagi innkallaði Hyundai 49 eintök af rafbílnum Kona EV vegna möguleiki á að hugbúnaðarvilla valdi því að bremsupetali verður þungur.

Þá innkallaði Brimborg 33 Volvo V40 og V40CC bifreiðar af árgerð 2015-2017. Ástæða var möguleiki á að lofttappi gæti myndast við áfyllingu kælivökva. Gerist það, leiðir það til ófullnægjandi kælingar á vélarhlutum og jafnvel valdið eldhættu.

Í  öllum tilfellum hvatti Neytendastofa bifreiðaeigendur til að fylgjast vel með hvort verið væri að innkalla þeirra bifreiðar og hafa samband við umboðið ef þeir væru í vafa.

mbl.is