Bíll Eltons Johns undir hamarinn

Uppboðsbíll Eltons Johns, Maserati Quattroporte.
Uppboðsbíll Eltons Johns, Maserati Quattroporte.

Bíll sem rokksöngvarinn Elton John keypti splunkunýjan árið 2005 er kominn á uppboð. Hann var skraddarasniðinn að þörfum söngvarans og sagður sem nýr, svo vel hafi verið með hann farið.

Um er að ræða tiltölulega lítt ekinn Maserati Quattroporte af 2005-árgerðinni. Hann býðst á netuppboði hjá uppboðshúsinu The Market. Stendur uppboðið yfir á netinu í eina viku frá næstkomandi fimmtudegi, 18. febrúar.

Bíllinn er með 4,2 lítra V8-vél og með aukabúnaðinum var um margfalda lúxus- og þægindamikla bifreið að ræða. Þar á meðal var afþreyingarbúnaður ýmiss konar og hljómtæki s.s. geisladiskaspilari sem hlaða mátti sex diskum í.

Sómdi bíllinn sér einkar vel í hinu mikla bílasafni Eltons. Segir talsmaður uppboðshaldaranna að svo vel hafi verið farið með bílinn að engu líkara sé en hann hafi verið meðhöndlaður og umgenginn sem sjálfur væri hann stórstjarna.

Núverandi eigandi þessa merka Maserati Quattroporte-stássgrips eignaðist hann árið 2016. Sparlega hefur hann farið með bílinn, honum aðeins ekið 1.600 kílómetra á fjórum árum. Frá upphafi vega árið 2005 standa 28.493 mílur á hraðamælinum, eða sem svarar 45.590 km.

Búist er við því að bíllinn seljist á 15 til 40 þúsund pund, jafnvirði 2,6 til 7,1 milljónar króna.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: