Fyrirbyggjandi viðhald sparar fólki peninga

Sölvi Guðmundarson og Hjalti Guðmundsson á verkstæðinu. Gott viðhald ætti …
Sölvi Guðmundarson og Hjalti Guðmundsson á verkstæðinu. Gott viðhald ætti að auðvelda endursölu mbl.is/Árni Sæberg

Það getur verið varasamt að slá viðhaldi og viðgerðum bifreiða á frest og kann m.a. að valda því að skemmdir smiti út frá sér. Þetta segir Hjalti Guðmundsson, framkvæmdastjóri bifreiðaverkstæðisins PG Startþjónustan á Viðarhöfða.

Ládeyða er yfir atvinnulífinu og víða er þröngt í búi og segir Hjalti að þegar þannig árar hætti sumum til að láta bílaviðgerðir mæta afgangi. „Eðlilega hefur fólk áhyggjur af ástandinu og vill spara pening ef það getur. Er þá kannski annar eða þriðji bíllinn á heimilinu látinn bíða viðgerðar ef bilun kemur upp og reynt að komast af án hans þangað til ástandið lagast.“

Leiðir til dýrari viðgerða

Hjalti segir óhætt að láta bilaða bíla standa en hins vegar sé varasamt að halda áfram að nota bíl sem greinilega þarf á viðgerð eða viðhaldi að halda. „Ef t.d. rafgeymirinn er orðinn slappur og fólk frestar því að skipta honum út fyrir nýjan þá eykst álagið á alternatorinn (þ.e. riðstraumsrafalinn) og stútar honum á endanum. Algengt verð á nýjum rafgeymi er á bilinu 16-20.000 kr. en alternator kostar í kringum 45-50 þúsund, og þarf vitaskuld að kaupa nýjan rafgeymi þegar skemmdum alternatornum er skipt út.“

Annað dæmi af svipuðum toga er ef fólk dregur að skipta um bremsuklossa. „Þegar klossarnir hafa eyðst upp fara neistar að skjótast frá bremsunum enda nuddast járn utan í járn. Neistarnir þyrlast út frá dekkinu og eyðileggja lakkið á bílnum og felgurnar,“ segir Hjalti og bætir við að ekki eigi að fara framhjá neinum þegar kominn er tími á að kíkja á bremsurnar. „Í flestum nýrri bílum kemur upp viðvörunarljós en í eldri bílum eru bremsurnar hannaðar þannig að stálpinni í bremsuklossanum byrjar að naga í bremsudiskinn þegar slitið er orðið mikið og heyrist þá ískur þegar bremsað er.“

Reglulegar hjólastillingar hafa líka mikið að segja með slit á dekkjum og álag á drifbúnaði. „Í Bandaríkjunum er það þumalputtaregla að jafnvægisstilla hjólin á 10.000 mílna fresti. Það kemur í veg fyrir að fólk sitji uppi með misslitin dekk og tryggir að bíllinn sé rásfastur og góður í keyrslu. Ef bíllinn er ekki rétt stilltur og t.d. útskeifur að framan, þá veldur það líka strax meira álagi á spindilkúlur, stýrisenda og fóðringar enda verið að toga allan hjólabúnaðinn út á við þegar ekið er í beinni línu.“

Eins og skoðun hjá tannlækni

Þegar kostnaðurinn við heimsókn á bifreiðaverkstæði er settur í samhengi við annan rekstrarkostnað ökutækis sést að ekki er um mikil útgjöld að ræða. Hjalti segir algengt að tímagjald á verkstæði sé um 15.000 kr. og megi reikna með að taki um 1,5 til 2 tíma að yfirfara bílinn. „Og með því að hugsa vel um ökutækið er fólk vonandi að forðast dýrari viðgerðir og losna við það umstang og kostnað sem fylgir óvæntum bilunum. Þá er ekki nokkur vafi að það hjálpar mjög við endursölu ef þjónustubókin endurspeglar að bíllinn eigi sér góða sögu.“

Nýlegum bílum fylgir yfirleitt ábyrgð að því tilskildu að farið sé með þá í reglulegar þjónustuskoðanir á verkstæði seljanda. Umboðin halda vel utan um viðskiptavini sína og gæta þess jafnan að minna á þegar tími er kominn á skoðun. Hjalti segir mikilvægt að halda þessu áfram þegar bíll er ekki lengur í ábyrgð og jafn brýnt að heimsækja bifvélavirkjann til að sinna fyrirbyggjandi viðhaldi og það er að heimsækja tannlækninn reglulega til að koma auga á holur. „Þetta ætti að gera að minnsta kosti einu sinni á ári, og oftar en það ef bílinn er keyrður meira en 15.000 km árlega. Hefur þetta mikið að segja með það að bíllinn endist lengi.“

Þarf ekki alltaf að kaupa nýtt

Þó að PG Startþjónusta sinni öllum almennum bílaviðgerðum er fyrirtækið sérhæft í störturum og alternatorum. Hjalti segir að þessir hlutar bílvélarinnar láti mest á sjá þegar snjór, salt og slabb er á götum en tiltölulega mildur vetur á suðvesturhorninu hafi þýtt að lítið hafi verið um bilaða alternatora og startara að undanförnu.

Þróunin hjá framleiðendum hefur því miður verið þannig að startarar og alternatorar endast ekki jafnvel og þeir gerðu áður og segir Hjalti að skýringin sé líklegast sú að meira er notað af endurunnu stáli og áli við framleiðsluna sem gerir þessa parta viðkvæmari fyrir tæringu. „Er t.d. ekki langt síðan við fengum til okkar alternator úr rútu sem var eins og hálfs árs gömul en tæringin var eins og í 20 ára vörubíl.“

Til að alternatorar og startarar endist betur segir Hjalti að m.a. verði að gæta að þeim hlífum sem eru undir bílnum. „Oftast eru þessar hlífar úr plasti og eiga það til að brotna. Sumir einfaldlega henda hlífunum, setja ekki nýja í staðinn og hugsa svo ekki meira um það, en á meðan eiga alls konar óhreinindi greiða leið að vélinni.“

Hér hjálpar vitaskuld að kíkja með bílinn í skoðun með reglulegu millibili og koma auga á merki um vandamál í uppsiglingu. „Og það getur líka hjálpað að þrífa vélarrúmið öðru hvoru en þá er vissara að láta gera það á bónstöð þar sem menn kunna til verka enda mikið af rafmagns- og tölvubúnaði undir húddinu á bílum í dag og ekki sama hvernig hann er spúlaður.“

Komi bilun upp í alternator eða startara er oft hægt að gera við íhlutinn ferkar en að kaupa nýjan. „Getur munað helmingi á kostnaði við að gera við í stað þess að kaupa nýjan en tveggja ára ábyrgð fylgir þess háttar viðgerðum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: