Innan um ofursportbíla alla daga

„Það er fátt sem jafnast á við að fá að …
„Það er fátt sem jafnast á við að fá að ganga um verksmiðjugólfið og sjá einstakar bifreiðar taka ásig mynd,“ segir Gunnar.

Óhætt er að fullyrða að vinnudagurinn hjá Gunnari Erni Gunnarssyni er skemmtilegri en gengur og gerist. Eru eflaust margir sem myndu vilja skipta við hann og fá að vinna árið um kring við að þróa gullfallega ofursportbíla.

Gunnar er burðarvirkisverkfræðingur hjá breska bílaframleiðandanum McLaren en eins og það sé ekki nóg þá starfaði hann þar á undan hjá Aston Martin en á báðum stöðum hefur hann fengið að taka þátt í hönnun stórmerkilegra ökutækja sem flestum þætti gaman að eiga í bílskúrnum.

Það kann að koma lesendum á óvart að leiðin til Aston Martin og McLaren hófst á kennsluverkstæði í Borgarholtsskóla: „Bílaáhuginn kviknaði á unglingsárunum en ég freistaði þess að hrista bakteríuna af mér og læra rafvirkjun, en bílgreinarnar tosuðu í mig svo árið 2002 skrái ég mig í bifreiðasmíðanám,“ segir Gunnar. „Ég hafði áður stundað það að gera við bíla og uppgötvaði að ég er nokkuð handlaginn. Í iðnnáminu blómstraði ég svo mikið að ég lauk tveimur gráðum: annars vegar í vélvirkjun og hins vegar bifreiðasmíði.“

En það er ekki sjálfgefið að ungur íslenskur iðnnemi setji markið á að komast að hjá merkilegustu bílaframleiðendum heims. Var það í skiptinámi í Austurríki gegnum Leónardó-verkefnið að Gunnar kom auga á tækifærin og einsetti sér láta að sér kveða á alþjóðavettvangi. Hann segir að í byrjun hafi hann látið sig dreyma um að komast að hjá Audi einn daginn en örlögin höguðu því þannig til að Gunnar fékk inni hjá Oxford Brookes-háskóla og lá því beinast við að freista gæfunnar hjá bresku framleiðendunum. Fyrst lauk Gunnar bachelor-gráðu í kappaksturs-bílaverkfræði og í framhaldinu útskrifaðist hann með meistaragráðu í bifreiða- og farartækjaverkfærði en Oxford Brookes þykir í hópi virtustu háskóla í heimi þegar kemur að verkfræðimenntun fyrir bíliðnaðinn.

Missti næstum af starfinu

Meðal þeirra verkefna sem Gunnar Örn hefur átt stóran þátt …
Meðal þeirra verkefna sem Gunnar Örn hefur átt stóran þátt í er hönnun McLaren Speedtail-ofursportbílsins sem frumsýndur var árið 2019. Gunnar segir algengt að þurfa að vinna samhliða að a.m.k. tveimur verkefnum í einu og tekur yfirleitt þrjú til fimm ár frá því hugmyndin aðnýjum McLaren kviknar og þar til hulunni er svipt af tilbúnu ökutæki.


Það tíðkast við virta breska háskóla að leiðandi fyrirtæki reyni sérstaklega að laða nemendur þeirra til sín og þannig var það í tilviki Gunnars að honum gafst kostur á að sækja um starfsnám hjá Aston Martin. Mátti þó litlu muna að hann missti af tækifærinu: „Í um það bil mánuð í byrjun hvers árs er opinn gluggi fyrir umsóknir um starfsnám en ég var svo sokkinn í vinnu við hönnun á keppnisbíl kappakstursteymis skólans að ég gleymdi að sækja um. En þar sem ég tek yfirleitt ekki nei fyrir svar þá tók ég til við að hringja í fólk strax og ég hafði áttað mig á að ég hafði misst af lestinni og komst í samband við góðan mann hjá Aston Martin. Ég sagði honum hvernig málum var háttað og fékk að senda þeim ferilskrána mína. Tveimur vikum síðar var ég boðaður í viðtal og fékk starfið.“

Gunnar var hjá Aston Martin í tæp þrjú ár og tók meðal annars þátt í hönnun burðarvirkis DB11-sportbílsins. Þá tók við stutt stopp í Svíþjóð hjá indverska fyrirtækinu Tata sem er móðurfélag Jaguar Land Rover, og loks færði Gunnar sig yfir til McLaren árið 2017.

Gunnar er sérhæfður í burðarvirkishönnun en áhuginn á þessu tiltekna sviði bílahönnunar kviknaði í Borgarholtsskóla þar sem Gunnar sökkti sér ofan í smíði og hönnun burðarvirkis úr áli. Um svipað leyti var notkun koltrefja að ryðja sér til rúms og var einmitt McLaren leiðandi í þeirri þróun, og leið ekki langur tími þar til Gunnar var kominn á bólakaf í möguleika koltrefjanna.

Kallar á metnað og frumkvæði

McLaren svipti nýverið hulunni af sportbílnum Artura (t.v.). Gunnar kom …
McLaren svipti nýverið hulunni af sportbílnum Artura (t.v.). Gunnar kom að hönnun burðarvirkis bílsins en Artura þykir marka kaflaskil.


En hvernig er það svo að starfa hjá fyrirtækjum eins og Aston Martin og McLaren? Reyndist vinnan alveg eins og Gunnar hafði dreymt um?

Í stuttu máli er svarið já: „Það er fátt sem jafnast á við að fá að ganga um verksmiðjugólfið og sjá einstakar bifreiðar taka á sig mynd. Þá er andrúmsloftið hjá þessum fyrirtækjum eins og hjá sprotafyrirtæki: ótrúlegur metnaður í öllu sem fólk er að fást við og allir að keppast við að þróa eitthvað nýtt og betra,“ segir hann. „Fólki er kannski treyst fyrir tiltölulega smáum verkefnum í byrjun en þeim sem standa sig vel er jafnt og þétt treyst fyrir til að axla meiri ábyrgð.“

Gunnar segir drifkraftinn smitandi og það eigi við um alla kollega hans að þeir skila af sér miklu meira en 100% vinnuframlagi. „En það á líka við um okkur öll að þetta er einmitt okkar áhugasvið, okkur finnst vinnan skemmtileg og áskoranirnar spennandi.“

Spurður hvers konar mannkostir fleyti fólki langt hjá McLaren segir Gunnar að það þurfi ekki síst að hafa brennandi áhuga á ofursportbílum. „Jafnframt kallar starfið á að fólk vinni af miklum metnaði og kunni að beita tæknilegri nálgun til að leysa vandamálin, og líka að geta lagt sitt af mörkum í teymisvinnu með stórum hópi fólks. Þá þarf að sýna frumkvæði með það að markmiði að reksturinn verði öflugur og lipur,“ segir Gunnar og bætir við að sjálfum þyki honum svo gaman í vinnunni að honum hálfpartinn leiðist þegar helgin kemur því þá þurfi hann að gera tveggja daga hlé á því sem hann hefur mesta ánægju af.“

Svo er ekki amalegt að fá endrum og sinnum að grípa í bílana, og líka hluti af starfinu að setjast reglulega á bak við stýrið á bílum keppinautanna til að sjá hvað þeir eru að gera. Gunnar fær þó ekki frjálsan aðgang að sportbílum McLaren. „En ef um réttmæta notkun á bílunum er að ræða, s.s. ef við viljum gera tilraun með breytta jafnvægisstöng eða eitthvað álíka, þá getum við sótt um að fá bíl til afnota og höldum þá af stað út á braut.“

Strípuð skelin á McLaren Speedtail.
Strípuð skelin á McLaren Speedtail.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: