Tesla stenst væntingar

Bílafólk. Herjólfur Guðbjartsson, framkvæmdastjóri Tesla á Íslandi, til vinstri, með …
Bílafólk. Herjólfur Guðbjartsson, framkvæmdastjóri Tesla á Íslandi, til vinstri, með þeim Helgu Rún Guðjónsdóttur og Haraldi Hrafni Guðmundssyni þegar þau tóku við bílnum nýja í gær sem þau róma eftir fyrsta rúntinn á rafmagni. mbl.is/Sigurður Bogi

„Kaup á rafmagnsbíl höfðu lengi verið á stefnuskránni. Talsverðan tíma tók að finna bíl sem nákvæmlega hentaði og svaraði okkar væntingum. Eftir að hafa sest inn í Tesla og reynsluekið voru val og ákvörðun hins vegar auðveld. Þetta er afskaplega þægilegur bíll, kraftmikill og hefur mikla drægni,“ segir Helga Rún Guðjónsdóttir í Reykjavík.

Þau Helga og eiginmaður hennar, Haraldur Hrafn Guðmundsson, fengu í gær afhenta spánnýja Tesla-bifreið hjá umboðinu hér á landi. Þetta væri ekki í frásögur færandi nema hvað þetta er 1.000. bíllinn sem seldur er hjá umboðinu á því eina ári sem liðið er síðan afhending hófst á þessum bílum. Engin gerð bíla á Íslandi náði heldur jafn mikilli sölu í fyrra og Model 3 gerði. Bílar þessarar gerðar kosta frá 5,8 milljónum króna. „Þetta er æðislegur bíll og núna er ég komin út í umferðina og brosið fer bókstaflega ekki af mér. Bíllinn er sérstaklega þægilegur í borgarumferð,“ segir Helga Rún.

Herjólfur Guðbjartsson, framkvæmdastjóri Tesla á Íslandi, segir viðtökur landans við bílunum vera afar góðar og að sama skapi ánægjulegar.

„Rafbílar koma sterkir inn á markaðinn. Þar ræður vitund almennings í umhverfismálum og svo eldsneytisverð. Rafmagn er ódýr orkugjafi samanborið við annað og hleðsla á bílunum tekur æ skemmri tíma. Tesla eru fullkomnir bílar og með nettengingu uppfærist stýrikerfið reglulega, svo tala má um stöðuga endurnýjun þess. Meginskýring á góðri sölu er því sú að Tesla eru einfaldlega bílar sem hafa sannað gildi sitt. Að 1.000 Tesla-bifreiðir séu seldar á einu ári er stór áfangi á þeirri vegferð sem orkuskipti í samgöngum á Íslandi eru,“ segir Herjólfur. sbs@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: