Leiðinlegt að aka kraftlitlum bílum

Valur Freyr minnist þess hve ánægjulegt var að aka af …
Valur Freyr minnist þess hve ánægjulegt var að aka af stað á bíl sem hann átti skuldlaust. Morgunblaðið/Eggert Jóhannesson

Þegar kemur að bílakaupum lætur Valur Freyr Einarsson skynsemina ráða. Hann segist ekki velta bílum mjög mikið fyrir sér en lagðist þó í ákveðna rannsóknarvinnu þegar hann keypti sér nýjan Mitsubishi Outlander fyrir fjórum árum: „Ég legg mest upp úr notagildinu og vil aka um á bíl sem er sæmilega nýr og getur komið mér á milli A og B án vandkvæða. Outlanderinn varð fyrir valinu m.a. vegna þess að hann er frekar sterkbyggður og öruggur bíll og heppilegur fyrir bíltúra upp í sumarbústað og fyrir skíðaferðir.“

Valur er um þessar mundir önnum kafinn við sýningar á leikritinu Allt sem er frábært í Borgarleikhúsinu. Sýningar hófust síðla árs 2019 en gera þurfti hlé vegna kórónuveirufaraldursins og verkið sett aftur á fjalirnar í þessum mánuði og þeim næsta. 

Kvæntur konu með bíladellu

Valur leggur það ekki í vana sinn að kaupa glænýja bíla en lét það þó eftir sér í þetta skiptið því honum hafði tæmst arfur. „Það var góð tilfinning að aka af stað á nýjum bíl og eiga hann skuldlaust – vitandi að ég myndi ekki þurfa að leggja út fyrir öðru en díselolíu og tryggingum næstu árin,“ segir hann og bætir við að eftir að hafa þrengt hringinn og reynsluekið nokkrum efnilegum sportjeppum hafi Outlanderinn m.a. staðið upp úr fyrir þær sakir að vera með tiltölulega kröftuga vél. „Það getur verið leiðinlegt til lengdar að aka um á stórum bílum sem eru með of litla vél og finn ég það t.d. greinilega þegar ég tek bíl á leigu erlendis að maður verður fljótt þreyttur á akstrinum ef vélin er ekki nægilega kröftug.“

Valur er kvæntur listakonunni Ilmi Stefánsdóttur og hafa þau af og til ráðist í skemmtileg listræn verkefni þar sem ökutæki hafa leikið mikilvægt hlutverk. Valur segir að Ilmur hafi mun meiri bíladellu en hann, en hún sé líka sérvitringur þegar kemur að vali á bilum og taki gamla og fallega bíla með listrænt útlit fram yfir þá nýjustu og dýrustu. „Hún átti t.d. gamla Volkswagen-bjöllu sem stóð til að koma aftur í upprunalegt horf. Svo átti hún frumkvæðið að því að við keyptum gamlan Mercedes-Benz-strætó fyrir listagjörning á listahátíð í Reykjavík. Hún kom flygli fyrir í rútunni sem Davíð Þór Jónsson spilaði á á meðan hún ók um borgina með listahátíðargesti. Þessar ferðir hétu Rútopía.

Rútan er ekki lengur á heimilinu og ekki að greina mikla eftirsjá hjá Val. „Hún hreinlega drakk olíu og var alltaf að bila.“

Með áhuga á rafmagnsbílum

Þegar kemur að því að velja næsta bíl hallast Valur að því að fara yfir í rafmagnið. Hann segist ekki hafa fyllilega treyst rafmagns- og tvinnbílum þegar hann fjárfesti í Mitsubishinum á sínum tíma, en nýlegur bíltúr á Teslu sem vinur hans hafði eignast varð til þess að augu Vals opnuðust. „Ég var mjög hrifinn að sjá bæði hvað drægnin er góð og bíllinn aflmikill. Það sem ég þarf er þess háttar bíll en í útfærslu sem er meira sniðin að ýmsum þörfum fjölskyldunnar.“

Nema hvað það gæti verið vandasamt fyrir Val að koma fyrir hleðslustöð því hann býr við þrönga götu í Vesturbænum þar sem flestir þurfa að leggja bílunum sínum við gangstéttarbrúnina. „Ég er með örlítið einkabílastæði en þar kæmi ég ekki fyrir sæmilega stórum bíl. Til að geta hlaðið heima myndi því borgin sennilega þurfa að setja upp nokkrar hleðslustöðvar sem íbúar götunnar gætu skipst á um að nota.“ ai@mbl.is

Viðtalið birtist upphaflega í dálkinum „Draumabílskúrinn“ í Bílablaði Morgunblaðsins 16. mars síðastliðinn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: