Prinsinn hannaði eigin líkbíl

Samsett mynd/AFP

Filippus prins hafði í 18 ár lagt á ráðin um með hvaða hætti jarðneskum leifum hans yrði komið milli staða á útfarardegi. Fyrir valinu varð nokkuð óhefðbundið farartæki. Það er herjeppi af gerðinni Land Rover, sérsniðinn að því verkefni að flytja kistu hins aldna höfðingja.

Undirtegund bílsins er Defender TD5 130 og er að mestu með hefðbundnu sniði. Það helsta sem skilur hann frá öðrum bílum sömu gerðar er bakhluti hans sem er sérhannaður til þess að flytja líkkistu. Aftan á pallinum hefur haganlega verið komið fyrir sex gúmmíklæddum festingum sem halda munu kistunni í skorðum.

Sérstakar höldur eru á palli bílsins sem halda kistunni stöðugri …
Sérstakar höldur eru á palli bílsins sem halda kistunni stöðugri meðan á líkfylgdinni stendur. Ljósmynd/AFP

Í hergrænum lit

Þá lét Filippus sprauta bílinn í sama græna lit og notaður er á þá jeppa sem þjónusta breska herinn. Ferlið við hönnun og smíði bílsins hófst árið 2003 í góðu samstarfi við verksmiðju Land Rover. Þá var prinsinn 82 ára að aldri. Var bíllinn smíðaður í verksmiðju fyrirtækisins í Solihull árið 2003.

Hefur Telegraph eftir heimildum að Filippus hafi viljað að útför sín yrði með látlausara móti en oft tíðkast í tilfelli meðlima konungsfjölskyldunnar. Á hann að hafa sagt við konu sína, Elísabetu II drottningu: „Komið mér bara aftan á Land Rover og akið mér til Windsor.“

Mikill viðbúnaður er í kringum Windsor-kastala í undirbúningi fyrir útförina.
Mikill viðbúnaður er í kringum Windsor-kastala í undirbúningi fyrir útförina. mbl.is/AFP

Og prinsinum varð að ósk sinni. Hins vegar er útförin með talsvert öðru sniði en gert var upphaflega ráð fyrir og skýrist það af hinum hörðu sóttvarnaaðgerðum sem enn eru í gildi í Bretlandi. Ef allt hefði verið með felldu hefði kistunni verið ekið frá Wellington-boganum sem stendur við hornið á Hyde Park og til Windsor-kastala en leiðin þar á milli er u.þ.b. 35 km.

Ljósmynd/AFP

Ekki hinsti hvílustaður

Fram að útförinni stendur kista Filippusar í einkakapellu í Windsor-kastala. Á útfarardaginn verður hún hins vegar flutt, u.þ.b. átta mínútna leið frá kastalanum og til kapellu heilags Georgs sem er þó hluti af kastalabyggingunum. Þar fer hin eiginlega útför fram og að henni lokinni verður kistu Filippusar komið fyrir í konunglegri grafhvelfingu undir kapellunni. Það verður þó ekki hans hinsti hvílustaður. Þegar sá dagur kemur að Elísabet II fellur frá verður hún grafin í minningarkapellu Georgs konungs VI en þar hvílir faðir Elísabetar, Georg VI, kona hans, Elísabet drottning, og Margrét prinsessa, yngri systir Elísabetar II. Filippus mun einnig hljóta hinsta hvílustað í minningarkapellunni.

Líkbíllinn er óvanalegur. Í gegnum tíðina hafa kistur konunga og …
Líkbíllinn er óvanalegur. Í gegnum tíðina hafa kistur konunga og drottninga verið fluttar milli staða á hestvögnum og fallbyssukerrum. Ljósmynd/AFP
Filippus hafði unnið að hönnun líkbílsins allt frá árinu 2003. …
Filippus hafði unnið að hönnun líkbílsins allt frá árinu 2003. Þá var hann nýlega orðinn áttræður. Ljósmynd/AFP
Filippus prins og hertogi af Edinborg var meðal æðstu manna …
Filippus prins og hertogi af Edinborg var meðal æðstu manna í breska hernum. Hlutverk hans var þó fyrst og fremst táknrænt eftir að kona hans tók við ríki sínu. Ljósmynd/AFP
mbl.is