Toyota tekur á sprett

Millistærðarbíllinn Toyota bZ4X er væntanlegur á götuna í sumar.
Millistærðarbíllinn Toyota bZ4X er væntanlegur á götuna í sumar.

Toyota hélt sig lengur en flestir við stífa áherslu á tengiltvinnbíla en rétt eins og allir aðrir helstu bílsmiðir boðar sá japanski nú fjölskyldu hreinna rafbíla undir eigin merkjum.

Um helgina sendi Toyota frá sér mynd af einum þeirra bíla sem fyrirtækið er að þróa, bZ4X. Bz er einmitt það sem menn eiga eftir að kynna sér mjög en skammstöfunin stendur fyrir „beyond zero“, sem útleggja mætti sem „undir frostmarki“ eða „hinum megin við núllið“. Er þar með komið gott íslenskt nafn á nýja bílinn, eða Frosti. En þetta er nú í gríni sagt.

Fyrsti bíllinn í Toyotafjölskyldunni er millistærðarbíll með fjórhjóladrifi, bz4X, og verður hann fyrstur samtals 10 hreinna rafbíla sem komnir verða á götuna í síðasta lagi 2025. Ekki gefur bílsmiðurinn fyrri framleiðslustefnu sína upp á bátinn og mun m.a. bjóða upp á fjölda módela tengiltvinnbíla á árabilinu fram til 2025.

Bz4X er byggður á undirvagni sem Toyota hefur þróað í samstarfi við Subaru og heitir e-TNGA. Fyrstu bz4X-bílarnir koma á götuna í sumar en mörg ár eiga eftir að líða áður en Subaru notar þennan undirvagn.

Hverfandi lítið er vitað um bílinn tæknilega. Kvisast hefur út að hann verði með tvo rafmótora, einn á hvorum öxli. Þá segir að rafhlöðurnar verði í einingum sem geri kleift að bjóða upp á misjafnlega stóra orkugeymslu, eða á bilinu 50 til 100 kílóvattstunda.

Ekki hefur verið sagt orð um væntanlegt drægi Toyotu þessarar.

Henni verður stillt upp til samkeppni við bíla eins og Tesla Model Y og VW ID.4

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: