110% aukning bílasölu milli aprílmánaða

Bílasalan er á uppleið.
Bílasalan er á uppleið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sala nýrra fólksbíla í apríl jókst um tæp 110% miðað við apríl í fyrra, en alls voru skráðir 781 nýir fólksbílar nú en voru 372 í fyrra.

Í heildina eftir fyrstu fjóra mánuði ársins hefur salan aukist um 0,6% miðað við sama tímabil í fyrra. Í ár hafa selst 2.870 nýir fólksbílar samanborið við 2.853 nýja fólskbíla í fyrra. 

Til einstaklinga seldust 379 nýir fólksbílar í apríl saman borið við 269 á sama tíma í fyrra og er því aukning í sölu 40,9% milli ára. Það sem af er ári hafa selst 1.639 nýir fólksbílar til einstaklinga en í fyrra á sama tíma var búið að selja 1.643 nýja fólksbíla. 

Almenn fyrirtæki (önnur en ökutækjaleigur) keyptu 140 nýja fólksbíla í apríl í ár miðað við að hafa keypt 70 bíla í apríl í fyrra. Það sem af er ári hafa selst 653 nýir fólksbílar til almennra fyrirtækja en í fyrra á sama tíma voru seldir 599 nýir fólksbílar og er því aukning milli ára um 9%.

Sala til ökutækjaleiga tók aðeins við sér í apríl og seldust 260 nýir fólksbílar í ökutækjaleigu samanborið við 30 á sama tíma í fyrra. Það sem af er ári hafa verið skráðir 560 nýir fólksbílar í ökutækjaleigu samanborið við 582 bíl í fyrra, samkvæmt upplýsingum frá Bílgreinasambandinu.

Nýorkubílar (rafmagns, tengiltvinn, hybrid, metan) eru 65,6% allra seldra nýrra fólksbíla á árinu (rafmagn 23,6%, tengiltvinn 25,6% og hybrid 16,4%) en þetta hlutfall var 61,0% á sama tíma á síðasta ári. 

Í apríl var mest selda tegundin KIA með 149 selda fólksbíla, þar á eftir kemur Toyota með 101 seldan fólksbíla og þriðja mest selda tegundin í apríl var Volkswagen með 54 fólksbíla skráða.  

mbl.is