Verulega uppfærður Discovery

Breyttur Land Rover Discovery 5.
Breyttur Land Rover Discovery 5.

Það verður mikið um að vera hjá Jaguar Land Rover við Hestháls í Reykjavík á morgun, laugardaginn 8. maí milli klukkan 12 og 16, þegar frumsýndir verða þrír nýir og uppfærðir bílar í sýningarsalnum.

Þar verður um að ræða verulega uppfærðan Land Rover Discovery 5 með mildri tvinntækni, nýjan Land Rover Defender 90, sem er þriggja dyra útgáfa jeppans sem margir hafa beðið eftir með óþreyju, og loks uppfærðan Jaguar E-Pace sem nú kemur í fyrsta sinn í tengiltvinnútfærslu.

„Verulegar uppfærslur hafa verið gerðar á hinum vinsæla Land Rover Discovery sem kynntur verður á laugardag. Í ytra útliti eru breytingarnar augljósar, sérstaklega á ásýnd framenda þar sem blasa við endurhannað grill, ný aðalljós með áberandi díóðuljósum (LED) og einnig nýjum línum í stuðara. Að aftan er einnig kominn endurhannaður stuðari auk þess sem bíllinn hefur fengið nýjar og breyttar álfelgur. Breytingarnar á Discovery 5 eru þó ef til vill enn augljósari í farþegarýminu því Discovery hefur fengið alveg ný og endurhönnuð rafstýrð sæti með nýjum efnum, nýtt mælaborð framan við ökumann auk nýs og stærri HD miðjuskjás fyrir nýja upplýsinga- og afþreyingarkerfið Pivi Pro frá Land Rover. Þá er framrúðuskjár einnig í boði sem varpar ákveðnum grunnupplýsingum á rúðuna til hægðarauka fyrir ökumann,“ segir í tilkynningu.

Sex strokka vélar og háþróuð tvinntækni

Nýr Land Rover Discovery 5 er nú eingöngu í boði með nýjum sex strokka Ingenium bensín- og dísilvélum og að auki með nýrri 48V mildri tvinntækni sem skila meiri afköstum og eldsneytisnýtingu. Vélarnar eru á meðal þeirra fyrstu á markaðnum sem kynntar eru í sjö manna lúxusbíl í þessum gerðar- og stærðarflokki sem uppfylla nýja Euro 6d-dísilstaðalinn fyrir í Evrópu auk RDE2-vottunarinnar.

Nýr Land Rover Discovery 5 er í boði með 250 eða 300 hestafla Ingenium dísilvél auk þess sem hægt er að sérpanta bílinn með 300 eða 360 hestafla Ingenium bensínvél. Hægt er að kynna sér nánar ríkulegan staðal- og aukabúnað nýs Discovery 5 á jaguarlandrover.is.

Breyttur Land Rover Discovery 5.
Breyttur Land Rover Discovery 5.
mbl.is