Rafbílar ekki enn tilbúnir fyrir hálendið

Indriði Sævar Ríkharðsson.
Indriði Sævar Ríkharðsson.

Alþjóða Orkumálastofnunin (IEA) lýsti því yfir á dögunum að til að ná metnaðarfyllra markmiði Parísarsamkomulagsins um hnattræna hlýnun verði að hætta strax fjárfestingum í nýjum kolanámum og olíu- og gaslindum í heiminum.

Umbylta þurfi orkukerfi heimsins og skipta jarðefnaeldsneyti út fyrir endurnýjanlega orkugjafa. Indriði Sævar Ríkharðsson, lektor við iðn og tæknifræðideild HR og fagstjóri í vél- og orkutæknifræði, segir að enn sé nokkuð í það að mögulegt verði að allir bílar og vélknúin tæki geti verið án jarðefnaeldsneytis. Nefnir hann sem dæmi breytta jeppa m.a. fyrir björgunarsveitir, vélsleða og fleiri græjur.

„Það má búast við því að framboð af jeppum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti, þ.e. bensíni og dísil, muni minnka ár frá ári á næstunni. Það er alltaf verið að gera meiri takmarkanir á framleiðslu á þessum stóru bílum varðandi orkunýtingu og mengun. Bílaframleiðendur eru að einblína mjög á rafbíla sem er skiljanlegt í þessari þróun þar sem rafbílar valda ekki loftmengun. En þetta hefur vandamál í för með sér fyrir ákveðnar týpur af bílum m.a. ef menn eru að fara upp á hálendið á jeppum og einnig jeppa og vélsleða björgunarsveitanna. Það er mikilvægt að jeppar og björgunarsveitarbílar verði ekki rafmagnslausir á fjöllum þar sem þeir eru að bjarga fólki. Það segir sig sjálft," segir Indriði.

Ekki ætlaðir til torfæruakstur

„Það er spennandi að geta boðið upp á mengunarlausar ferðir fyrir ferðamenn upp á fjöll. Til að það geti orðið á rafbílum þurfa að vera hleðslustöðvar á hálendinu eða nálægt leiðum inn á hálendið. Það er enn talsvert í að það verði mögulegt eins og staðan er í dag. Við erum þó að sjá miklar framfarir í drægi nýjustu rafbíla. Margir þessir nýjustu bíla eru komnir með 300-400 km raundrægi. Við munum sjá enn meiri framfarir í nánustu framtíð þar sem rafbílar verða komnir með rúmlega 500 km drægi. En það þarf að sjálfsögðu talsvert meira til til að komast á hálendið og til baka og flestir þessara rafbíla eru ekki ætlaðir til torfæruaksturs þó þeir séu fjórhjóladrifnir. Fólk getur lent í óvæntum aðstæðum sem kalla á meiri rafmagnsnotkun en upphaflega var ráðgert," segir hann.

„Bensín og sérstaklega dísilbílar draga a.m.k. ennþá t.d. hjólhýsi og fleira betur en rafbílarnir. Nýjustu jepparnir eru að koma mikið sem tengiltvinnbílar sem hjálpar til við að minnka mengun og eyðslu. Nýjustu bílarnir og þar með taldir rafbílarnir eru að mörgu leyti erfiðari í breytingum. Í þessum nýju jeppum er breytt efnisnotkun. Það er sífellt verið að gera þá léttari m.a.  með því að smíða þá úr áli og trefjaefnum. Þetta kostar allt önnur vinnubrögð í breytingum og viðgerðum. Menn skera ekki lengur bretti og sjóða eitthvað blikk til að breyta jeppunum. Í dag eru margir bílar límdir og hnoðaðir saman. Þetta krefst sérstakrar tækni, þekkingar og vinnubragða. Það er ekki lengur hægt að fara inn í bílskúr og leika sér að breyta þessum nýju bílum eins og þeim gömlu,“ segir hann og brosir.

Skortur á tæknifræðingum

Indriði segir að rafbílar séu oft viðkvæmari fyrir árekstrum og erfiðara að gera við þá. „Það þarf eins og ég segi meiri sérþekkingu. Það eru allt önnur efni í þeim og rafhlöður geta skemmst við að verða fyrir höggi. Og þá kemur aftur að sérþekkingunni sem er svo mikilvæg í þessum geira. Þarna þarf tæknimenntað fólk með þjálfun og þekkingu til að vinna við rafbílana. Það verður fróðlegt og spennandi að sjá hvort það komi alvöru jeppar knúnir rafmagni með meiri drægni á næstu árum. Það er líklegt að sú verði raunin m.a. hjá GM, Hummer EV, Tesla Cybertruck svo dæmi séu tekin. Þangað til þurfa að vera brunavélar áfram í þessum jeppum eða breyta þeim t.d. í metan- eða vetnisbíla. Það gæti orðið iðnaður að breyta þessum bílum í alvöru fjallatæki. Þarna þarf þekkingu og tæknimenntað fólk,“ segir Indriði. Hann segir að það sé sárleg vöntun eftir tæknifræðingum á markaðnum. ,,Það sést á atvinnuauglýsingum þar sem alltaf er verið að auglýsa eftir tæknifræðingum. Það vantar fólk sem hefur breiða þekkingu og m.a. í bílageirann sem og margt annað. Ég vonast til að sjá fleiri koma til okkar í tæknifræðina í Háskólanum í Reykjavík. Það eru miklir atvinnumöguleikar í tæknifræðinni og góðar tekjur í boði," segir Indriði.

Vetni spennandi kostur fyrir atvinnubíla

Indriði telur að vetnisbílar gætu orðið framtíðin í atvinnubílum eins og vörubílum, flutningabílum og jafnvel skipum. „Víða erlendis er vetni aðallega framleitt með olíu en við gætum framleitt vetni beint með rafmagni hér á landi. Það hafa verið þróunarverkefni í gangi m.a. í Ástralíu að framleiða vetni úr ammoníaki á einfaldan máta. Það er mjög áhugavert. Þá yrði ammoníak notað sem flutningsmiðill fyrir vetni á milli landa en það er mun einfaldara að flytja ammoníak en vetni á hreinu formi. Metan sem er framleitt úr lífrænum úrgangi er annar möguleiki. Metanbílar eru algengir í Evrópu en þar er munurinn að metanið er aðallega framleitt úr olíu eða jarðgasi. Metan þarf að vera mjög hreint til að hægt sé að nota það á bílana. Fyrir Ísland er metan tilvalið en það hefur vantað upp á að innviðir séu í lagi og það hefur takmarkað þróunina. Metanbílar hafa því ekki náð nógu góðri fótfestu hér á landi þrátt fyrir að henta í raun mjög vel.“

Nemendur í HR bjuggu til rafbíl

Indriði segir að það sé mikill áhugi á bílum og tengdri tækni í vél- og orkutæknifærðinni í HR.
„Tæknifræðinemendur í HR bjuggu til og breyttu venjulegum Renault Kangoo í rafbíl fyrir 10 árum. Nemendurnir keyrðu hann hringinn í kringum landið og héldu námskeið um rafmagn í grunnskólum í leiðinni. Það var sennilega í fyrsta sinn sem rafmagnsbíl var ekið hringinn í kringum landið. Þess má geta að upphaflega hugmyndin að þessu verkefni var að smíða lítinn rafknúinn jeppa og fara á honum yfir jökul. Það er aldrei að vita nema sú hugmynd verði einhvern tímann að raunveruleika. Það er ýmislegt sem er í gangi nú þegar varðandi léttar breytingar á rafbílum. Það er verið að smíða hlífðarplötur undir fjórhjóladrifna rafbíla til að hlífa batteríunum sem eru undir bílunum ef ökumenn eru að fara út fyrir bæinn og freistast til að fara út af malbikinu. Ætli það verði ekki næsta skref að reyna að hækka þá upp,“ segir Indriði Sævar Ríkharðsson.

mbl.is