Íslensk tækni í metanólbílum

Metanólbíll Geely við verksmiðju CPI á Reykjanesi.
Metanólbíll Geely við verksmiðju CPI á Reykjanesi.

Kínverski bílsmiðurinn Geely ætlar að halda áfram þróun og smíði bíla sem knúðir verða af metanóli.

Þar kemur Ísland við sögu því æðsti maður bílsmiðsins, Li Shufu, segir Geely hafa fjárfest í íslenska fyrirtækinu Carbon Recycling International til að þróa tækni til framleiðslu metanóls með koltvíildi en með þeirri aðferð megi minnka heildarkolefnalosun.

Geely, sem er með bækistöðvar í borginni Zhejiang, er meðal hóps smærri bílsmiða sem eru að þróa og prófa leigubíla sem ganga fyrir metanóli í nokkrum borgum í vesturhluta Kína.

Auk fólksbíla er Geely einnig að þróa í atvinnubílasetri sínu vörubíla sem ganga munu fyrir metanóli.

Geely er eigandi sænska bílsmiðsins Volvo Cars og á 9,7% hlut í Daimler AG, móðurfélagi Mercedes-Benz og fleiri þýskra bílaframleiðenda.

„Við munum rannsaka og þróa tækni til metanólnotkunar í bílaframleiðslu. Auðvitað gæti það á endanum allt brugðist en við erum enn að vinna með þetta,“ sagði Li á iðnaðarráðstefnu í borginni Chongqing í vesturhluta Kína, en hann fór þó ekki nánar út í það.

Metanól sem eldsneyti myndi styrkja orkusjálfbærni Kínverja sem eiga gífurlegt magn kola í jörðu sem má umbreyta í metanól. Þá kvaðst Li búast við að metanólbílar yrðu mengunarhreinni en bensínbílar.

Geely hefur þegar gert prófanir á metanóli sem bílaeldsneyti í samvinnu við CRI-fyrirtækið sem rekur verksmiðju á Reykjanesskaga. agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »