Sjálfstýribúnaður Tesla til rannsóknar

Árið 2019 voru 858 Tesla Model 3-bifreiðar nýskráðar á Íslandi. …
Árið 2019 voru 858 Tesla Model 3-bifreiðar nýskráðar á Íslandi. Það var vinsælasti bíllinn það árið með 251 fleiri eintök en næsta tegund á eftir. AFP

Umferðaröryggisstofnun Bandaríkjanna (National Highway Traffic Safety Administration) hóf í dag rannsókn á sjálfstýringabúnaði Tesla-bifreiðanna en ellefu bílslys eru sögð tengjast búnaðinum á einhvern hátt. Slysin sem eru til rannsóknar eru frá síðustu þremur árum en í einu þeirra varð mannfall en í sjö þeirra urðu slys á fólki.

Sjálfstýribúnaðurinn hefur sætt töluverðri gagnrýni en Elon Musk, stofnandi Tesla Motors, segir bílstjórann þurfa að fylgjast náið með akstrinum enda þurfi hann að halda utan um stýrið á meðan akstri stendur. Þrátt fyrir það hefur búnaðurinn verið gagnrýndur þar sem auðvelt sé að blekkja hann þannig að hann keyri áfram án athygli bílstjórans.

Rannsókninni er aðallega ætlað að safna gögnum um slysin og veita stofnuninni betri sýn á þau og aðkomu sjálfstýribúnaðarins. Umferðaröryggisstofnunin minnir almenning á að engin bifreið sem bjóðist neytendum í dag geti keyrt sig sjálfir.

Einhverjir bílar kunni að vera búnir búnaði sem geti hjálpað bílstjórum að bægja frá árekstrum eða draga úr tjóni af völdum þeirra en eins og með alla aðra tækni þurfi bílstjórar enn sem áður að nota hana á skynsaman hátt.

mbl.is

Bloggað um fréttina