Lenda sumir þéttbýliskjarnar í hleðsluvanda?

Hleðslustöð.
Hleðslustöð. mbl.is/Valgarður

Sú mikla breyting sem orðið hefur á framboði rafbíla sást vel á nýlegri sýningu Rafbílasambands Íslands. Sýningin fór fram laugardaginn 7. ágúst á planinu fyrir framan Hörpu og mátti þar líta 22 rafbíla frá nærri öllum bílaumboðum. „Til samanburðar þá voru um 20 rafmagnsbílar í landinu öllu árið 2012 þegar hópur áhugamanna kom saman og stofnaði Rafbílasambandið,“ segir Tómas Kristjánsson, formaður félagsins.

Þrátt fyrir rigningarveður og óróleika í samfélaginu vegna kórónuveirunnar var viðburðurinn við Hörpu vel sóttur og var að staðaldri allstór hópur fólks á sýningarsvæðinu. „Við í Rafbílasambandinu, fulltrúar bílaumboðanna og gestir sem áttu leið til okkar voru á einu máli um að viðburðurinn hefði heppnast mjög vel,“ segir Tómas.

Tómas Kristjánsson, formaður Rafbílasambandsins.
Tómas Kristjánsson, formaður Rafbílasambandsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í dag er svo komið að ýmist má finna rafmagnsbíla í sýningarsal eða hægt að sérpanta þá hjá hverju einasta bílaumboði á Íslandi. Er það í samræmi við öran vöxt í sölu rafbíla en það sem af er þessu ári hafa nærri 1.900 nýir rafbílar verið seldir á Íslandi. Til samanburðar hafa selst tæplega 2.400 bílar með bensínmótor, nærri 2.200 bílar með dísilvél og rúmlega 1.900 bensín-tengiltvinnbílar frá byrjun þessa árs.

„Markaðurinn hefur tekið að springa út á undanförnum árum. Árið 2018 seldust 760 rafbílar, voru orðnir 1.000 talsins árið 2019, og 2.551 fólksbíll knúinn rafmagni seldur á síðasta ári. Markaðurinn hefur því margfaldast að stærð á milli ára og þúsundir rafbíla á götunum.“

Biðraðir myndast á álagstímum

En með hverjum nýjum rafbílnum eykst þörfin fyrir góða hleðsluinnviði. Tómas segir að reikna megi með að meirihluti þeirra sem fjárfest hafa í rafbíl hafi aðstöðu til að hlaða bílinn heima fyrir en óhjákvæmilegt sé að þeim fari fjölgandi sem reiði sig á að geta stungið í samband við vinnustaði og verslanir eða geta bætt á rafhlöðuna á hraðhleðslustöð. Bendir Tómas á, í þessu sambandi, hversu óheppilegt það sé að deilur um hleðslustöðvar ON og Reykjavíkurborgar hafi valdið því að tugir almennra hleðslustöðva hafa verið straumlausar frá því um mitt sumar. Þá mátti reglulega lesa um það í frétta- og samfélagsmiðlum í sumar að rafbílaeigendur áttu stundum erfitt með að komast í hleðslu á ferð sinni um landið og langar biðraðir við hraðhleðslustöðvar í dreifbýli.

Um flöskuhálsana í hleðslustöðvakerfinu segir Tómas að í öllum tilvikum sé um einkaframtak að ræða og rekstur hleðslustöðva verði að standa undir sér fjárhagslega. „Það er ekki hægt að búast við því að framboð hraðhleðslustöðva taki mið af hámarkseftirspurn örfáa daga á ári. Hins vegar sjá viðkomandi rekstraraðilar hvert stefnir og vinna að því að fjölga hleðslustöðvum þar sem því verður við komið. Þá er ekki hægt að útiloka ýmsar leiðir til að bæta nýtingu hleðsluinnviða s.s. með forritum sem leyfa fólki að taka frá tíma á hleðslustöð á leið sinni milli landshluta, eða nota breytilega verðlista til að tryggja t.d. að fullhlaðnir bílar teppi ekki hleðslustæði.“

Hvað ef Akureyri rafbílavæðist?

Tómas hefur minni áhyggjur af framboði hleðslustöðva á Blönduósi eða Staðarskála og á öðrum vinsælum áfangastöðum við Hringveginn en meiri áhyggjur af rafmagnsframboði í sumum landshlutum. Segir hann t.d. horfurnar ekki góðar fyrir Akureyringa ef helmingur bæjarbúa myndi ákveða að fá sér rafmagnsbíl. „Akureyri glímir nú þegar við vanda þegar kemur að raforkuframboði og erfitt að sjá hvernig rafmagnsinnviðir bæjarins munu geta annað eftirspurn ef þar verða 10.000 rafbílar í hleðslu á kvöldin að tíu árum liðnum. Má ætla að ástandið sé svipað í mörgum stærri þéttbýliskjörnum. Margt horfir þó til betri vegar og vinnur t.d. Landsnet að lagningu Hólasandslínu 3 til að tryggja stöðugleika raforkukerfisins á Norður- og Austurlandi.“

Nánar er fjallað um málið í Bílablaði Morgunblaðsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »