Mercedes-Benz frumsýnir nýjan lúxus-rafbíl

Nýr Mercedes-Benz EQE.
Nýr Mercedes-Benz EQE. Ljósmynd/Bílaumboðið Askja

Mercedes-Benz EQE verður frumsýndur á bílasýningunni í München sem nú er hafin. EQE verður fyrsti stóri alrafdrifni fólksbílinn frá þýskum bílaframleiðanda og er hans beðið með mikilli eftirvæntingu eins og gefur að skilja enda hefur forverinn Mercedes-Benz E-Class verið mjög vinsæll sem lúxusbíll í gegnum árin. Nýr EQE mun koma á markað á næsta ári.

Þetta segir í tilkynningu frá bílaumboðinu Öskju.

Þar segir einnig að nýr EQE líkist mjög hinum stóra lúxusbíl EQS, sem frumsýndur var fyrr í sumar og er ekki leiðum að líkjast. EQE er eins og EQS fagurlega hannaður að innan sem utan og búinn miklum lúxus og þægindum í anda Mercedes-Benz.

EQE er einnig hátæknivæddur bíll með allt það nýjasta í afþreyingu, akstursstoðkerfum og öryggisbúnaði frá þýska lúxusbílaframleiðandanum. MBUX upplýsinga- og afþreyingarkerfi Mercedes-Benz staðalbúnaður í EQE. Í innanrýminu er 12,8 tommu OLED skjá og Hyperscreen, skjár sem teygir sig alla breidd mælaborðsins, er fáanlegur sem aukabúnaður.

Nýr Mercedes-Benz EQE.
Nýr Mercedes-Benz EQE. Ljósmynd/Bílaumboðið Askja

Drægnin allt að 660 kílómetrar

Nýr EQE 350 er útbúinn 90 kWst rafhlöðu og drægni bílsins er allt að 660 km samkvæmt WLTP staðal. EQE verður í boði með afturhjóladrifi og fjórhjóladrifi. EQE er aflmikill bíll og rafhlaðan skilar bílnum 250 hestöflum og 530 Nm í togi. EQE er væntanlegur síðar í 600 hestafla AMG ofurútgáfu.

EQE er smíðaður á tveimur stöðum í heiminum, í verksmiðju Mercedes-Benz í Bremen í Þýskalandi og Bejing í Kína fyrir Asíumarkað. EQE verður kynntur hér á landi hjá Bílaumboðinu Öskju næsta vor og fjórhjóladrifsútgáfa bílsins verður væntanleg næsta haust.

EQE er 4.994 mm á lengd, 1.961 mm á breidd, 1.521 mm á hæð og hann er með 3.122 mm hjólhaf sem er sérlega langt. Farangursrými EQE er 430 lítrar.

Fleiri bílar frá Mercedes-Benz verða afhjúpaðir á bílasýningunni í München, eins og EQS 53 AMG, Mercedes-Maybach EQS SUV Concept og síðast en ekki síst Concept EQG, rafvædda útgáfan af hinum magnaða G-Class sem enn er á hugmyndastigi. Þá verður Evrópuútgáfa af EQB frumsýnd, en þar er um að ræða glæsilegan, rafdrifinn, 7 manna fjölskyldujeppling.

mbl.is