Nýr og sportlegri BMW X3

Nýr BMW X3.
Nýr BMW X3. Ljósmynd/BL

BL kynnir á laugardag, milli klukkan 12 og 16, uppfærðan og enn sportlegri fjórhjóladrifinn BMW X3, sem er einn söluhæsti fólksbíll framleiðandans.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá BL.

Þar segir að bíllinn hafi tekið fáguðum, en nokkuð ákveðnum breytingum bæði útlitslega og í farþegarými auk þess sem BMW býður viðskiptavinum sínum nú aukið val í búnaðarútfærslum.

Nýr BMW X3.
Nýr BMW X3. Ljósmynd/BL

Sem dæmi um útlitsbreytingar á nýjum BMW X3, sem kom á síðasta ári í fyrsta sinn í tengiltvinnútfærslu bensínvélar og rafmótors (PHEV), má nefna nýja hönnun á sambyggðu framstykki stuðara og svuntu með lóðréttum loftinntökum til beggja hliða.

Þá er grillið stærra en áður, eins og segir í tilkynningunni, og nú hannað sem eitt stykki í stað tveggja aðskildra eininga. Í ljóðréttri miðjubrú grillsins er val um myndavél.

Þá eru framljósin örlítið lægri en áður og nú eingöngu búin díóðum (LED). Að aftan eru komin sportlegri afturljós, þar sem díóðurnar eru einnig alls ráðandi, nýir sexhyrningslaga púströrsendar eins og á X5 í stað þeirra kringlóttu sem áður voru auk þess sem komin er hlífðarplata undir afturstuðara til hlífðar fyrir akstur á misjöfnbum vegslóðum. Útlitsbreytingarnar undirstrika sportlega eiginleika bílsins og getu X3 til að koma við á áfangastöðum utan helstu alfararleiða.

Breytingar í farþegarými

Farþegarýmið hefur einnig fengið ákveðna upplyftingu, m.a. með sinkhúðuðum römmum á lofttúðum.

Þá hefur snertiskjárinn á ofanverðum miðjustokkinum stækkað, komin er ný hönnun á láréttan miðstutokkinn við breytta gírstöngina ásamt því sem staðsetning sumra stjórnhnappa hefur breyst, svo sem á ræsihnappinum sem áður var á ofanverðum miðjustokkinum en er nú við hlið gírstangarinnar.

Að síðustu má nefna mælaborðið framan við ökumann sem fengið hefur áþekka hönnun og er í X5, og vönduð sportsætin sem nú eru meðal staðalbúnaðar í X3.

Vél og afköst

BMW X3 PHEV er fáanlegur í tveimur útfærslum; annars vegar X-Line með 292 hestafla vél eins og áður og kostar hann 9.890.000 kr. og hins vegar M-Sport, sem einnig er með 292 hestafla vélinni og kostar hann 10.890.000 kr.

BMW X3 PHEV hefur allt að 43 km drægni á rafhlöðunni og er dráttargeta bílsins tvö tonn. Allar nánari upplýsingar um ríkulegan staðalbúnað BMW X3 PHEV og fáanlegan aukabúnað eru að finna í verðlista á BMW.is

mbl.is