Draumabílskúr Vilhelms Neto uppistandara

Vilhelm Neto skemmtikraftur.
Vilhelm Neto skemmtikraftur. mbl.is/Unnur Karen

Þótt Vilhelm Neto hafi aldrei átt bíl hefur hann nokkuð skýra hugmynd um hvers konar ökutæki hann mun leita að þegar loksins kemur að því að velja bíl á heimilið:

„Ég er hrifinn af bílum sem hafa greinilegan persónuleika og hef t.d. mjög gaman af Nissan Micra-smábíl sem var eitt sinn í eigu eins vinar míns en er því miður löngu farinn á haugana,“ útskýrir Vilhelm.

„Ég held að þegar kemur að bílakaupum hjá mér muni ég reyna að finna mér Saab og gildir þá einu hve gamall hann er. Hefur það hent mig nokkrum sinnum að setjast upp í bíl og vera mjög hrifinn, og þegar ég spyr hvaða gerðar bíllinn sé hefur svarið verið „Saab“.“

Vespa. Það er ekkert annað í boði þar, ekki bara …
Vespa. Það er ekkert annað í boði þar, ekki bara fyrir lúkkið heldur líka fyrir stemninguna. Keyra vespu í smábæ í Ítalíu væri draumurinn.

Vilhelm hefur skotið hratt upp á stjörnuhimininn og vakti m.a. verðskuldaða athygli fyrir frammistöðu sína í síðasta áramótaskaupi. Þessa dagana vinnur Vilhelm að því að semja næsta skaup auk þess að halda úti hlaðvarpinu Já OK og taka þátt í uppistands-sýningum VHS-hópsins.

Sýningin ber yfirskriftina VHS krefst virðingar og stendur yfir í Tjarnarbíói fram í janúar. Auk Vilhlems hefur VHS-hópurinn á að skipa þeim Vigdísi Hafliðadóttur, Hákoni Erni Helgasyni og Stefáni Ingvari Vigfússyni.

Lestarstöðin í Porto hrífandi

Bílleysið hrjáir Vilhelm ekkert sérstaklega enda býr hann á Holtsgötunni og getur farið flestra sinna ferða fótgangandi. Vilhelm fluttist til Íslands fyrir tveimur árum, að loknu námi erlendis, en hann ólst upp í Portúgal og þróaði þar með sér áhuga á lestarsamgöngum.

„Það er eitthvað rómantískt við það að ferðast með lest og allt í kringum lestarupplifunina höfðar til mín. Ég held t.d. upp á fallegar lestarstöðvar, eins og aðallestarstöðina í Porto, og á líka ánægjulegar minningar frá Hovedbanegården í Kaupmannahöfn, á leiðinni heim af djamminu eða með kaffibolla í hendi á leið í stutt ferðalag út fyrir bæinn.“

Hefur Vilhelm meira að segja tekið Eurorail-Evrópureisu í tvígang: fyrst um vesturhluta álfunnar og svo um austari hlutann. Segir hann að það erfiðasta við að ferðast um Evrópu með þeim hætti hafi verið að halda farangrinum í lágmarki og taki enga stund að verða uppiskroppa með hrein föt.

„Það gat verið fjögurra tíma verkefni að finna stað til að þvo og þurrka fötin en þá var oft góður bar skammt undan og hægt að bíða þar á meðan þvottavélarnar voru í gangi.“

Litli borgarbíllinn: Nissan Micra, 1995-módelið, helst bíllinn sem vinur minn, …
Litli borgarbíllinn: Nissan Micra, 1995-módelið, helst bíllinn sem vinur minn, Stefán Ingvar, keyrði þegar við vorum í MH. Sá bíll var svo mikill karakter að ég hugsa enn um hann í dag: ekki góður bíll, en góður í öllu hinu.

Lestarmatur veldur oftast vonbrigðum

Hefur Vilhelm gert það að venju að hafa lítinn bakpoka meðferðis hvert sem hann fer en þar geymir hann raftölvu, rafbókalesara, skrifblokk og penna, og eftir atvikum nesti, sólarvörn og föt til skiptanna.

Með þetta sett við höndina í lestarferð er honum ekkert að vanbúnaði og getur hann unnið, lesið eða dundað sér á meðan landslagið þýtur framhjá. Hann mælir sérstaklega með því að gleyma ekki nestinu – og og eins og einni lítilli rauðvínsflösku – ef lestarferðin er löng því allur gangur er á gæðum þeirra veitinga sem finna má í evrópskum lestum:

„Ég er svolítill matgæðingur og leita oft uppi matarvagninn en hef rekið mig margoft á að ekkert matarkyns er í boði. Man ég bara eftir einu skipti, þar sem ég var á leið til Póllands, að eldhúsið var opið og starfsfolkið mændi á mig þegar ég pantaði mér pólskan morgunverð. Ég held að það hafi verið eina bærilega máltíðin sem ég hef fengið í lest.“

Lottóvinningurinn: Lexus NX. Þessi væri kannski skemmtilegur ef maður væri …
Lottóvinningurinn: Lexus NX. Þessi væri kannski skemmtilegur ef maður væri að prakkarast til að gera meira en bara rúnta um bæinn.

Þarf að gefa sér tíma til að ganga

En lestum er ekki til að dreifa í Reykjavík og þegar Vilhelm þarf að komast á milli bæjarhluta notar hann strætó ef honum tekst ekki að fá far. „Það getur bara verið svo rosalega mikil vinna að ferðast með strætó og miklu betra ef einhver getur skutlað mér. Bý ég svo vel að yfirleitt stendur ekki á þeim vinum mínum sem eiga bíl að hjálpa mér á áfangastað.“

Fyrir styttri ferðir hefur Vilhelm vanist því að nota rafhlaupahjól sem hann leigir eina ferð í senn. Hann segist samt vera að reyna að venja sig af hlaupahjólunum, hentug sem þau eru.

„Það er þægilegt að bíða fram á síðustu stundu með að fara út úr húsi og stökkva á hlaupahjól, en ég vil reyna að gera meira af því að ganga á milli staða, m.a. heilsunnar vegna. Það tekur hvort eð er enga stund að ganga milli staða í miðbænum og það eina sem ég þarf að gæta mín á er að gefa mér smá tíma fyrir göngutúrinn.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: