Rafbíllinn Polestar kynntur til sögunnar

Polestar 2 Long range Dual motor kostar frá 6.750.000 kr.
Polestar 2 Long range Dual motor kostar frá 6.750.000 kr.

Brimborg opnar nýjan sýningarsal fyrir Polestar rafbíla frá Svíþjóð þann 25. nóvember nk. samkvæmt tilkynningu frá framleiðanda bílsins og umboðsaðilans Brimborgar. 

Í tilkynningunni segir að um sé að ræða hágæða rafbíla með afburða aksturseiginleika.  

Nils Mösko, forstöðumaður stefnumótunar og viðskiptaþróunar hjá Polestar, segist í tilkynningunni hlakka til að koma með Polestar til Íslands sem sé í fararbroddi í heiminum þegar kemur að grænni orku.

Hristi rækilega upp í bílamarkaðnum

Egill Jóhannsson forstjóri Brimborgar segir í tilkynningunni að hann trúi því að sérhæft, hágæða, rafbílamerki á borð við Polestar sem státi af afburða aksturseiginleikum muni hrista rækilega upp í bílamarkaðnum. Polestar muni leggjast af krafti á árarnar með Íslendingum við að ná metnaðarfullu markmiði Íslands um að verða fyrsta jarðefnaeldsneytislausa landið í heiminum árið 2050. „Við hjá Brimborg erum eðlilega mjög spennt fyrir því að vera orðin opinber umboðsaðili Polestar á Íslandi,“ segir Egill og bætir við að enginn vafi leiki á því að bíll á borð við Polestar 2 mun festa sig í sessi sem leiðandi á markaði hágæða rafbíla. 

Heimsfrumsýndur 2020

Polestar 2 var heimsfrumsýndur árið 2020 og hlaut mikið lof frá viðskiptavinum, aðdáendum og fjölmiðlum, að því er segir í tilkynningunni. Þar segir einnig að Polestar 2 sé margverðlaunaður. „Hann hlaut titilinn „Bíll ársins“ í Noregi og Sviss, var kosinn besti alhliða rafbíllinn af BBC Top Gear Magazine, hlaut Red Dot-verðlaunin fyrir framúrskarandi hönnun og eftirsótta titilinn „Gullna stýrið“ í Þýskalandi.“

Polestar 2 er fyrsti fjöldaframleiddi rafbíll fyrirtækisins.
Polestar 2 er fyrsti fjöldaframleiddi rafbíll fyrirtækisins.

Polestar 2 er fyrsti fjöldaframleiddi rafbíll fyrirtækisins. Á Íslandi verður Polestar 2 í boði með tveimur rafmótorum, stærri 78 kWh drifrafhlöðu og allt að 300 kW / 408 hestöflum og 660 Nm togi.

Rafmagnsjeppi á leiðinni

Í framtíðinni er stefnt að því að bæta Polestar 3 rafmagnsjeppa við línuna, sem og hugmyndabílnum Precept sem kom út árið 2020 og er í þróun fyrir framtíðarframleiðslu.

„Precept endurspeglar framtíðarsýn vörumerkisins hvað varðar sjálfbærni, stafræna tækni og hönnun. Í apríl 2021 tilkynnti Polestar um þau áform sín að skapa fullkomlega kolefnishlutlausan bíl fyrir árið 2030,“ segir í tilkynningunni.

Hægt verður að panta Polestar á netinu frá og með 25. nóvember næstkomandi. 

mbl.is