Sala fólksbíla jókst um 73%

Sala á fólksbílum hefur aukist miðað við nóvember í fyrra.
Sala á fólksbílum hefur aukist miðað við nóvember í fyrra. mbl.is/Árni Sæberg

Sala nýrra fólksbíla í nóvember jókst um 72,9% miðað við nóvember í fyrra, en alls voru skráðir 963 nýir fólksbílar nú en í nóvember 2020 voru 557 nýjir fólksbílar skráðir.

Í heildina eftir fyrstu 11 mánuði ársins hefur sala nýrra fólksbíla aukist um 34,6 % miðað við sama tímabil í fyrra. Í ár hafa selst 11.531 nýir fólksbílar samanborið við 8565 nýja fólksbíla í fyrra. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Bílgreinasambandinu.

Þar segir að til einstaklinga hafi 587 nýjir fólksbílar selst í nóvember samanborið við 368 á sama tíma í fyrra og er því aukning í sölu til einstaklinga tæplega 60% milli ára í nóvember. Það sem af er ári hafa selst 5.438 nýir fólksbílar til einstaklinga en í fyrra á sama tíma var búið að selja 4721 nýja fólksbíla sem þýðir aukningu í sölu til einstaklinga um 15,2% það sem af er ári. 

Fyrirtæki stórauka við sig

Almenn fyrirtæki (önnur en ökutækjaleigur) keyptu 187 nýja fólksbíla í nóvember í ár miðað við að hafa keypt 148 bíla í nóvember í fyrra. Það sem af er ári hafa selst 1.745 nýir fólksbílar til almennra fyrirtækja en í fyrra á sama tíma voru seldir 1.804 nýir fólksbílar og er því samdráttur í sölu nýrra fólksbíla til fyrirtækja 3,2% það sem af er ári.

Sala til ökutækjaleiga jókst svo um munaði  sé horft til síðastliðins árs vegna þess ástands sem COVID19 hafði um heim allann á síðastliðnu ári og endurspeglaði sala til ökutækjaleiga það vel þegar einungis 39 nýjir fólksbílar voru seldir til ökutækjaleiga. 177 nýjir fólksbílar voru seldir í nóvember til ökutækjaleiga og söluaukning í nóvember er því 353,8 % miðað við síðasta ár. Oktober var  fyrsti mánuðurinn frá því mars sem mælanlegur samdráttur var í sölu fólksbíla til ökutækjaleiga en í nóvember er aukning í prósentum ein sú mesta sem sést hefur.

Það sem af er ári hafa verið skráðir 4.218 nýir fólksbílar í ökutækjaleigu samanborið við 1.919 bíla í fyrra og er því aukning í sölu fólksbíla til ökutækjaleiga tæplega 120% á þessu ári 

Nýorkubílarnir sækja enn á

Nýorkubílar (rafmagns, tengiltvinn, hybrid, metan) er 70,7% allra seldra nýrra fólksbíla á árinu en hlutfall nýorkubíla heldur áfram að aukast jafnt og þétt enda er vöruúrval stöðugt að aukast með fleiri valkostum (rafmagn 26,34%, tengiltvinn. 25,61% og hybrid 18,79%) en þetta hlutfall var í heildina 55,23% á sama tíma á síðasta ári.

Enn fleiri velja nú annaðhvort hreina rafmagnsbíla eða tengiltvinnbíla enda heldur hlutfall aksturs á rafmagni tengiltvinnbíla áfram að aukast með aukinni drægni og betri tækni, flest allir tengiltvinnbílar hafa orðið það mikla drægni í akstri á rafmagni eingöngu að það dugar til daglegrar notkunar  flestra og þá sérstaklega við akstur innanbæjar.  Hlutfall nýorkubíla seldir í nóvember er um 87,33%

Í nóvember var Hyundai mest selda fólksbílategundin með 145 selda fólksbíla, þar á eftir kemur Kia með 86 selda fólksbíla og þriðja mest selda fólksbílategundin í nóvember var Toyota með 77 nýja fólksbíla skráða.  

mbl.is