Nýr Benz dregur þúsund kílómetra á einni hleðslu

Nýr Vision EQXX.
Nýr Vision EQXX. Ljósmynd/Mercedes Benz

Mercedes-Benz frumsýndi hugmyndabílinn Vision EQXX nú í byrjun árs. Bíllinn er sá skilvirkasti sem þýski lúxusframleiðandinn hefur nokkru sinni framleitt. Bíllinn dregur rúmlega 1.000 km sem er talsvert lengra en nokkur hreinn rafbíll hefur komist hingað til á einni hleðslu.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá bílaumboðinu Öskju.

Þar segir að með Vision EQXX stilli Mercedes-Benz sér upp sem leiðandi bílamerki í framleiðslu rafbíla sem og einnig í hugbúnaði bíla. Vision EQXX er búinn tækni sem gerir honum kleift að brjótast í gegnum tæknihindranir og nýta orku betur.

Nýjar rafhlöður og endurnýtanleg efni sem notuð eru í framleiðslu bílsins gera hann að framúrstefnulegum bíl sem setur ný viðmið í framleiðslu rafbíla, eins og segir í fréttatilkynningunni.

Ljósmynd/Mercedes Benz

Leiðandi rafbíll

„Vision EQXX er eins og við hugsum okkur framtíðina í rafbílum. Við hófum vinnu við bílinn fyrir einu og hálfu ári síðan og markmiðið var að smíða skilvirkasta rafbíl sem hefur verið smíðaður og með mesta drægið og það hefur tekist. Vision EQXX  er leiðandi rafbíll á svo margan hátt og sýnir enn á ný hversu langt Mercedes-Benz er komið í þróun rafbíla,“ er haft eftir Ola Kallenius, stjórnarformanni Daimler AG og Mercedes-Benz AG, í fréttatilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina