Með allt að 800 bíla á planinu

Á þessari loftmynd má sjá bílasölusvæðið. Þar er m.a. hleðsluaðstaða …
Á þessari loftmynd má sjá bílasölusvæðið. Þar er m.a. hleðsluaðstaða fyrir rafmagns- og tengiltvinnbíla.

Nýtt bílasölusvæði var vígt um helgina við Krókháls 7, gegnt gatnamótum Vesturlandsvegar og Suðurlandsvegar. Þrátt fyrir að vera á besta stað stóð reiturinn áður því sem næst auður en á komandi vikum verður hægt að þekkja svæðið af stórum díóðu-auglýsingaskjá sem mun vísa út að Vesturlandsvegi og ætti að verða eitt af kennileitum vegakerfis Reykjavíkurborgar.

Svæðið hefur fengið nafnið K7 og þar sameinast fimm bílasölur: Askja – Notaðir bílar, Bílaland BL, Bílamiðstöðin, Bílabankinn og Hyundai – Notaðir bílar. Þrjár byggingar hafa verið reistar til að hýsa bílasölurnar en samtals nær K7 yfir 23.000 fermetra svæði og er með stæði fyrir um það bil 800 bíla. Er það Arkís sem á heiðurinn af hönnun K7.

Þorgeir Ragnar Pálsson er sölustjóri hjá Öskju og segir hann samstarf bílasalanna meðal annars koma til af því að Reykjavíkurborg lagði undir sig svæði við Eirhöfða þar sem áður voru bílasölur en nú stendur til að reisa þar nýja íbúðabyggð. „Þá er heppilegt fyrir Öskju og Bílaland að selja notaða bíla á þessum stað en BL er með sýningarsal Jagúar og Land Rover rétt hjá, og Askja með sína starfsemi ofar á Krókhálsinum,“ útskýrir hann. „Staðsetningin er góð og verður K7 mjög sýnilegt svæði frá tveimur helstu umferðaræðunum inn í Reykjavík.“

Einnig felast í því samlegðaráhrif að hafa margar bílasölur á sama reitnum. „Við getum átt von á góðu gegnumstreymi viðskiptavina og á margan hátt er heppilegra fyrir þá sem sækja K7 heim að geta skoðað allt að 800 bíla á einum stað frekar en að þurfa að aka á milli bílasala og þræða þar minni bílaplön sem hafa kannski ekki að geyma nema 50 bíla að staðaldri. Hér verður hægt að ganga að góðu framboði vísu og ólíklegt að fólk finni ekki hjá K7 notaðan bíl sem hentar því,“ segir Þorgeir og upplýsir að það hafi tekið 7-8 manna hóp tvo daga að flytja 200 bíla frá gamla sýningarsvæði Öskju á Kletthálsi 2 yfir á Krókhálsinn.

Aðstaðan er góð og hefur t.d. verið komið fyrir hleðslustöð fyrir rafmagns- og tengiltvinnbíla, og hægt að stækka hleðslustöðvakerfið ef á þarf að halda. „Þar sem við vitum að mörgum þykir best að skoða bílaframboðið á kvöldin, eftir vinnu, gættum við þess að hafa mjög góða díóðulýsingu á öllu planinu og getur fólk því virt ökutækin vel fyrir sér á kvöld- og helgarrúntinum.“

Eftirspurn meiri en framboð

Reikna má með líflegu sumri hjá K7 en Þorgeir segir hægt að greina merki um aukna eftirspurn eftir notuðum bílum. Minnir hann á að röskun varð á framleiðslu nýrra bíla í kórónuveirufaraldrinum og víða um heim mældist mikil hækkun á verði notaðra bíla. „Bílaleigurnar fara varlega enda eru þær ekki að fá alla þá nýju bíla sem þær vilja, og halda því lengur í eldri bílana sem þýðir að framboðið á notuðum bílum er minna en ella. Reikna ég með að þegar við höldum inn í sumarið verði skortur á notuðum bílum frekar en hitt. Er skorturinn meiri í ákveðnum flokkum bifreiða og eru t.d. jeppar á verðinu í kringum fimm milljónir króna að stoppa mjög stutt hjá okkur.“

Notaðir rafmagnsbílar rjúka líka út: „Nú erum við að sjá 3-5 ára rafmagnsbíla koma á markaðinn og ef þeir eru á verðbilinu 2-2,5 milljónir er slegist um þá. Kaupendur vita að drægnin í nýjustu rafbílunum er meiri en fólk er að kaupa notuðu rafmagnsbílana sem aukabíl á heimilið til að nota innanbæjar og því er ekki stórmál þó að drægnin sé takmörkuð.“

Reiknar Þorgeir ekki með að komandi sumar verði jafnslæmt og 2020 þegar víða mátti sjá hálftóm bílasöluplön. „Það sem gerðist þá var að þar sem landsmenn gátu ekki ferðast til útlanda á hápunkti faraldursins notaði fólk tækifærið til að ferðast innanlands og nýtti spariféð til að fjárfesta í notuðum bíl.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: