Nýr RX boðar nýja sókn

Það var spenna í loftinu í Brussel í gær þar sem japanski bílaframleiðandinn Lexus hafði kallað bílablaðamenn víða að úr Evrópu til þess að kynna fyrir þeim nýja kynslóð sportjeppans RX. Hann hefur lengi hefur verið einn af vinsælustu bílum fyrirtækisins og hefur það selt ríflega 3,5 milljónir eintaka honum. 

Um talsverðan tíma hefur legið í loftinu að Lexus hygðist kynna til sögunnar nýja kynslóð RX og er þetta raunar sú fimmta frá árinu 1998 þegar þessi gerð Lexus var fyrst sett á markað. 

500h+ bíllinn kemur aðeins í hinni svokölluðu F-Sport útfærslu sem …
500h+ bíllinn kemur aðeins í hinni svokölluðu F-Sport útfærslu sem er mjög rennileg og með klassísk séreinkenni, bæði í ytra byrði og innanstokki. Ljósmynd/Lexus

Á frumsýningu bílsins í gær fjallaði Bar Eleen, sem stýrir markaðsmálum Lexus í Evrópu um þær nýjungar sem fylgja hinni nýju kynslóð. Benti hann á að nýja útfærslan væri að 95% hluta þróuð frá grunni. Það ætti bæði við um ytra byrði bílsins og innra auk undirvagns og vélbúnaðar. 

Augljós tengsl við fyrri kynslóðir

Þrátt fyrir hina miklu vöruþróun hefur hönnuðum Lexus tekist að halda í sérkenni bílsins, breiðar strokur sem teygja sig frá grilli og aftur að afturhlera og skörp skil milli þaks og annarra og neðri hluta bílsins. 

En það eru ekki aðeins útlitsbreytingar sem koma með hinum nýja RX. Fyrirtækið fetar sig sömuleiðis í átt að aukinni rafvæðingu með þessu skrefi. Bíllinn er sem fyrr boðinn í hefðbundinni tvinnútgáfu sem aðdáendur Lexus þekkja vel og nefnist hann RX 350h 

Nýtt grill er eitt af séreinkennum nýrrar kynslóðar. Bíllinn sver …
Nýtt grill er eitt af séreinkennum nýrrar kynslóðar. Bíllinn sver sig þó augljóslega í ætt við fyrri kynslóð RX. Ljósmynd/Lexus

Nú er einnig boðið upp á tengil-tvinn útgáfu sem tyllir sér við hlið nýja NX bílsins sem á liðnu ári var einnig kynntur til sögunnar í slíkri útfærslu. Nefnist þessi útgáfa RX 450+. Er ekki ósennilegt að hún muni kæta Lexus-unnendur hér á landi auk annarra sem leggja nú aukna áherslu á rafdrægni. Segir fyrirtækið að drægni bílsins á rafmagni sé um 65 km. (endanlegt mat liggur ekki fyrir).  

500h+ með enn meira afl

Þá boðar fyrirtækið einnig nýja tíma með svokallaðri 500h+ útfærslu sem er skilgreind sem túrbó-tvinn (performance hybrid). Er þetta fyrsti bíllinn frá Lexus sem búinn er þessari tækni en henni er ætlað að svala þorsta þeirra á markaðnum sem kalla eftir rafknúnum bílum með mikla hröðunarmöguleika. Skilar bensín- og rafmótor bílsins 371 hestafli (350h er 245 hesthöfl og 450h+ skilar skv. mælingum 306 hestöflum) og hröðun frá 0 og upp í 100 á 5,9 sekúndum samkvæmt frummælingum (sama hröðun er 7 sekúndur hjá 450h+ útfærslunni og 8 sekúndur hjá 350h).

Í samtali við Morgunblaðið segir Spiros Fotinos, yfirmaður Lexus í Evrópu að útfærslurnar þrjár sem nú eru kynntar með nýrri kynslóð RX undirstriki að fyrirtækið sé vel í stakk búið til þess að mæta kröfum markaðarins þar sem orkuskipti séu orðin veigamikill þáttur í þróuninni. Hann ítrekar þá stefnu Lexus að fyrirtækið verði búið undir fulla rafvæðingu árið 2030 en í upphafi nýs áratugar gerir fyrirtækið ráð fyrir að evrópski markaðurinn verði að mestu á þeirri línu.

mbl.is