Rafbílar sem beðið er með eftirvæntingu

Rúgbrauðið, ID.Buzz, snýr aftur árið 2023, rafmagnað og hlaðið nýjustu …
Rúgbrauðið, ID.Buzz, snýr aftur árið 2023, rafmagnað og hlaðið nýjustu tækni. Má teljast öruggt að margir bíði spenntir eftir þessum snotra rafbíl sem verður fáanlegur bæði sem sendibíll, smárúta og ferðabifreið. Af lýsingum Volkswagen má ráða að ID.Buzz taki risaskref fram á við á sviði sjálfaksturs, þökk sé þrotlausu rannsóknar- og þróunarstarfi. Volkswagen Newsroom

Fyrir ekki svo löngu þótti úrval rafbíla frekar fátæklegt og biðin löng á milli nýrra módela. Í dag er framboðið allt annað og framleiðendur raunar svo duglegir við að dæla nýjum rafbílum út á markaðinn að það getur verið erfitt fyrir neytendur að hafa góða yfirsýn.

Til að aðstoða lesendur við leitina að næsta rafbíl hefur Bílablað Morgunblaðsins gert einfalda samantekt yfir einkar áhugaverða rafbíla sem vitað er að koma á markaðinn á næstu misserum. Listinn er gerður með fyrirvara um tafir og aðrar óvæntar uppákomur hjá framleiðendum, en sumir bílarnir á listanum koma úr smiðju nýliða í bílageiranum og sýnir reynslan að plön um smíði framúrstefnulegra rafbíla ganga ekki alltaf að óskum.

Skal tekið fram að alls ekki er um að ræða tæmandi lista yfir væntanlega rafbíla enda myndi slíkur listi þurfa mun stærra pláss í blaðinu.

Audi-mediacenter.com

Audi A6 e-tron og Q4 e-tron

Audi á sérstakan sess í hjörtum margra Íslendinga og streymdu pantanir inn hjá Heklu þegar fyrsti alvöru rafmagnsbíllinn frá Audi, e-tron, fór í sölu. Næstir í röðinni hjá Audi eru Q4 e-tron sportjeppinn sem á að koma á markað á þessu ári, og A6 e-tron stallbakurinn, sem gæti komið 2023. Q4 e-tron verður, til að byrja með, fáanlegur með allt að 295 hestafla rafmagnsaflrás og A6 gæti verið nálægt 470 hestöflum.

Press.bmwgroup.com

BMW i7 og iX1

Von er á i7 árið 2023 og verður þessi rafmagnaði fulltrúi 7-línunnar sennilega flaggskipið í BMW-fjölskyldunni og ætlað að keppa við bíla á borð við EQS frá Mercedes-Benz. Í haust er síðan von á rafmagns-sportjeppanum iX1 sem ætti að falla mjög vel að þörfum hins dæmigerða Íslendings sem þarf endrum og sinnum að aka í erfiðri vetrarfærð.

Chevrolet Pressroom

Chevrolet Silverado EV

Chevrolet er með nokkra áhugaverða rafbíla uppi í erminni en lúxuspallbíllinn Silverado EV er ef til vill sá sem mun seljast einna best. Fyrsta útgáfa Silverado EV verður 105.000 dala lúxusbifreið og hlaðin tækni en GM segir að bíllinn muni ná 100 km/klst. á rétt rúmlega 4,5 sekúndum. Vinnuútgáfan af Silverado EV mun kosta undir 40.000 dölum og lofar GM nærri 650 km drægni.

Cadillac Presroom

Cadillac Lyriq

Bandaríski bílaframleiðandinn Cadillac hefur átt misgóða spretti undanfarna áratugi og ekki alltaf tekist að hitta í mark hjá neytendum. Rafbíllinn Lyriq lofar góðu og gæti markað kaflaskil hjá Cadillac en fyrstu eintökin verða afhent bandarískum kaupendum í haust. Lyriq mun fást með allt að 500 hestafla aflrás og allt að 500 km drægni, og þykir hönnun bílsins falleg og nútímaleg, jafnt að innan sem utan.

Rolls-Royce Motorcars

Rolls-Royce Spectre

Seint á þessu ári verður hulunni svipt af endanlegu útliti rafmagnsbílsins Spectre frá Rolls-Royce en fyrstu bílarnir verða afhentir kaupendum á seinni hluta árs 2023. Ekkert er vitað um drægni og afl bílsins en stærð ökutækjanna frá Rolls-Royce og verðmiðinn sem þeim fylgir gera það frekar líklegt að rafhlaðan verði risastór og rafmótorarnir af kraftmestu gerð.

Lucidmotors.com

Lucid Air

Upp úr nýsköpunarumhverfinu í Kaliforníu sprettur þessi afmlikla lúxuskerra sem á að keppa við bifreiðar á borð við Model S frá Tesla. Lucid mun byrja á að bjóða upp á 1.111 hestafla bíl sem mun kosta 169.000 dali, jafnvirði 23 milljóna króna, en í framhaldinu koma ódýrari útgáfur með 800, 620 og 480 hestafla aflrás. Bandarískir kaupendur hafa þegar fengið fyrstu bílana í hendurnar og verður áhugavert að sjá hvenær fyrsti Lucid Air sést á götum Reykjavíkur.

Polestar

Polestar 3

Íslendingar hafa fallið kylliflatir fyrir Polestar og má heita öruggt að Polestar 3 muni rjúka út þegar hann kemur til landsins. Verður bíllinn í sportjeppastærð og alveg örugglega mjög kraftmikill og ríkulega búinn. Fyrr í vikunni upplýsti framleiðandinn að Polestar 3 muni kosta á bilinu 75.000 til 110.00 evrur, eða allt að 15 milljónir króna, kominn úr verksmiðjunni.

Maserati

Maserati Grecale Folgore

Ítalski sportbílaframleiðandinn hóf nýlega sölu á sportjeppanum Grecale sem seldur er með 296, 325 og 523 hestafla bensínvélum. Rafútgáfan, Folgore, kemur á markað síðar á þessu ári og ætti að kosta frá 75.000 dölum, jafnvirði rösklega 10 milljóna króna

Press.canoo.com

Canoo Pickup Truck

Hér er á ferð enn einn rafmagnsbíllinn frá Kaliforníu og er útlitið í senn óhefðbundið og hrífandi – og minnir helst á framúrstefnulegustu verk franskra bílahönnuða. Fyrstu Canoopallbílarnir verða smíðaðir árið 2024 og eiga þeir að vera að lágmarki 600 hestöfl með a.m.k. 320 km drægni. Smárúta frá Canoo á hins vegar að koma á götuna strax á þessu ári en endanlegt verð liggur þó ekki fyrir og talið hugsanlegt að Canoo muni byrja á að bjóða upp á nk. deilibíls-áskriftarmódel. Uppgefin drægni er u.þ.b. 400 km og aflrásin 300 hestöfl.

Mercedes-Benz Group

Mercedes-Benz EQG

Það virðist stundum eins og varla líði sá mánuður þar sem Mercedes-Benz kynnir ekki til sögunnar nýjan rafbíl. Er meira að segja gamli góði G-vagninn væntanlegur í rafmagnsútfærslu og verður gaman að sjá hvernig hann reynist á krefjandi slóðum og torfærum.

FF.com

Faraday Future FF91

Á tímabili héldu bílablaðamenn að ekkert yrði af framleiðslu þessa bíls, en hann var frumsýndur árið 2017. Nýlega sást til tilraunabíls í umferðinni í Kaliforníu og segir Faraday að framleiðsla muni hefjast seint á þessu ári. Þrír rafmótorar beina samanlagt 1.050 hestöflum til dekkjanna til að fara úr 0 í 100 á 2,4 sekúndum.

Tesla.com

Tesla Roadster

Næsta ár ætti að vera spennandi tími hjá Tesla en þá er reiknað með að fyrstu Cybertruck-pallbílarnir verði afhentir og að ný kynslóð Tesla Roadster komi á götuna. Um er að ræða nettan sportbíl sem ætti að ná frá 0 upp í 100 km/ klst. á hér um bil 1,9 sekúndum. Verður upplifunin sennilega eins og að sitja í rússíbana.

Media.lotuscars.com

Lotus Eletre

Bílarnir sem runnið hafa út af færibandinu hjá Lotus hafa hingað til verið nettar og litlar rakettur sem gaman er að leika sér með en ekki endilega þægilegt að brúka alla daga ársins: fallegir sportbílar með einstaka aksturseiginleika en sama sem ekkert pláss fyrir barnabílstól og innkaupapoka. Mun þetta allt breytast með Lotus Eletre sem verður í sportjeppastærð og með skott sem ætti að rúma nokkrar töskur og jafnvel stóran hund. Er þó vissara að skorða farangurinn (eða hundinn) vel því Eletre mun fást í bæði 600 og 900 hestafla útgáfum sem fara úr 0 í 100 km/ klst. á innan við þremur sekúndum. Á bíllinn að kosta í kringum 200.000 dali eða um 27 milljónir króna, áður en tollar og gjöld eru tekin með í reikninginn

newsroom.lexus.eu

Lexus RZ

Japanski lúxusbílaframleiðandinn Lexus lætur ekki sitt eftir liggja, og veitir öðrum framleiðendum harða samkeppni með RZ 450e, en um er að ræða fyrsta bílinn frá Lexus sem er hannaður frá grunni sem rafbíll. Að utan er billinn kraftalegur og að innan stílhreinn, fágaður og gegnheill eins og Lexus er von og vísa.

Greinin birtist upphaflega í Bílablaði Morgunblaðsins 19. júlí.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Loka