Rafbílar vinsælastir það sem af er ári

Rafbílar eru vinsælasti kostur kaupenda þegar nýir bílar eru annars vegar fyrstu átta mánuði ársins og er Kia söluhæsti rafbíll ársins hingað til, með 356 selda rafbíla á árinu. Þetta segir í tilkynningu frá Öskju.

Tesla kemur þar á eftir með 354 bíla og munar því aðeins tveimur bílum milli þeirra og Kia. Þar á eftir kemur Hyundai með 261 bíla, Skoda með 244 bíla og Polestar með 228 bíla. Um er að ræða bíla sem aka aðeins á 100% rafmagni, eru tengiltvinnbílar því ekki með.

Fæstir kaupi sér bensín- eða dísilbíl

Tæplega 12 þúsund fólksbílar hafa verið seldir það sem af er ári, að því er segir í tilkynningunni. Eru rafbílar um 25 prósent af heildarsölu hér á landi.

Sé sala til einstaklinga skoðuð þá velja 53 prósent kaupenda sér rafbíl, 19 prósent kaupa sér tengiltvinnbíla, hybrid bílar með 15 prósent og dísil- og bensínbílar reka lestina með 13 prósent hlutdeild í sölu á nýskráðum fólksbílum.

Þorgeir Pálsson, sölustjóri Kia hjá Öskju segist finna fyrir mikilli aukningu í sölu rafbíla, sem sé ánægjulegt að sjá.

,,Við finnum fyrir auknum áhuga á rafbílum með hverjum mánuðinum sem líður. Kia var söluhæsta bílategundin í flokki fólksbíla á síðasta ári og við höldum okkar striki á þessu ári,“ er haft eftir honum í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina