Kia Niro hlaut Gullna stýrið

Kia Niro rafbíll.
Kia Niro rafbíll. Ljósmynd/Aðsend

Nýi Kia Niro rafbíllinn hlaut þýsku verðlaunin Gullna stýrið í flokki lítilla SUV-bíla.

Tengiltvinnbíllinn Kia Sportage hafnaði í öðru sæti og Volkswagen Taigo hafnaði í þriðja sæti.

Niro rafbíllinn, Sportage Plug-in Hybrid og EV6 GT voru meðal 47 nýrra bíla í alls sjö flokkum sem ritstjórnir þýsku tímaritanna Auto Bild og Bild am Sonntag tilnefndu.

Lesendur tímaritana völdu þrjá úrslitabíla úr hverjum flokki áður en 21 manns dómnefnd sérfræðinga prófaði hvern bíl ítarlega í lokaumferð keppninnar á Dekra Lausitzring-kappakstursbrautinni í Þýskalandi, þar sem sigurvegararnir voru valdir. 

Þriðja Gullna stýrið á fjórum árum

„Gullna stýrið er mjög eftirsótt viðurkenning fyrir bestu bílana sem í boði eru í Þýskalandi. Kröfuharðir dómarar prufukeyra hvern bíl og það er okkur mikill heiður að Kia Niro-rafbíllinn skuli hafa orðið hlutskarpastur í ár, og að Sportage Plug-in Hybrid skuli hafa hafnað í öðru sæti. Þessi sigur kemur til með að efla vörumerkið Kia í Þýskalandi og stuðla að því að neytendum bjóðist verðlaunaðir rafbílar sem skera sig frá samkeppninni,“ er haft eftir Thomas Dujren, framkvæmdastjóra Kia Germany, í tilkynningu. 

Gullna stýrið sem Niro hlaut í ár er það þriðja á síðustu fjórum árum sem fallið hefur Kia í skaut. Kia Sorento hlaut heiðurinn árið 2020 þegar hann varð hlutskarpastur í flokki stórra SUV-bíla og Kia XCeed vann árið 2019 í flokki bíla undir 35.000 evrum.

mbl.is