Kia sviptir hulunni af EV9

Kia birti í dag myndir af ytri og innri hönnun …
Kia birti í dag myndir af ytri og innri hönnun Kia EV9. Ljósmynd/Aðsend

Bílaframleiðandinn Kia hefur svipt hulunni af EV9, fyrsta alrafmagnaða jeppanum frá Kia. Jeppinn verður heimsfrumsýndur í lok mars.

Kia birti í dag myndir af ytri og innri hönnun Kia EV9, fyrsta rafknúna jeppanum með þremur sætaröðum. Bíllinn færir framleiðandann nær markmiði sínu að bjóða upp á sjálfbærar samgöngulausnir, að því er segir í tilkynningu frá bílaumboðinu Öskju.

„Kia EV9 er nýstárlegur þar sem markmiðið er að endurskilgreina staðla fyrir hönnun, tengimöguleika, notagildi og ábyrgð í umhverfismálum,“ er haft eftir Karim Habib, aðstoðarframkvæmdastjóra og yfirmanni Kia Global Design Center.

„Kia EV9 er einkar hátæknilegur og nútímalegur rafvæddur valkostur á markaðinum fyrir stærri fjölskyldubíla. Þessi nýja gerð ökutækja veitir bæði ökumanni og farþegum einstaka upplifun og mikil þægindi með hugvitssamlegri nýtingu á rými, tækni og hönnun.“

Jeppinn verður heimsfrumsýndur í lok mars.
Jeppinn verður heimsfrumsýndur í lok mars. Ljósmynd/Aðsend

Ýmist sex eða sjö sæti

EV9 er með E-GMP undirvagn, langt hjólhaf, lága lista á hliðum og alveg flatt byggingarlag rafbíls. Hægt er að hafa ýmist sex eða sjö sæti, en Kia fékk endurgjöf frá fjölskyldum varðandi sætafyrirkomulag og aðra eiginleika.

Farþegar sem sitja í fyrstu og annarri sætaröðinni geta hallað sætum sínum og er í annarri röðinni hægt að snúa sætunum um 180 gráður svo farþegar geti haft samskipti við þá sem sitja í þriðju röð. Í þriðju röð er einnig að finna glasahaldara og hleðslustöðvar fyrir fartæki.

Mælaborðið nær frá stýrinu að miðju ökutækisins. Tveir 12,3 tommu snertiskjáir eru samþættir við einn 5 tommu skjá til að bæta stafræna upplifun, gera mögulegt að stýra virkni bílsins á auðveldan hátt og tryggja að hnappar séu sem fæstir, segir í tilkynningunni.

mbl.is