Rafmagnsvörubílarnir komnir til Íslands

Fystu rafmagnsvöruflutningabílarnir frá Volvo komnir til landsins.
Fystu rafmagnsvöruflutningabílarnir frá Volvo komnir til landsins. Ljósmynd/Aðsend

Fyrstu rafmagnsvörubílarnir á Íslandi verða til sýnis hjá Velti, Volvo atvinnutækjasviði Brimborgar. Bílarnir eru allir frá vörubílaframleiðandanum Volvo Trucks.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Brimborg.

Um er að ræða fjórtán rafvörubíla sem verða til sýnis á laugardaginn 29. apríl í Hádegismóum 8 í Árbæ frá klukkan 10-16. Einnig verður boðið upp á reynsluakstur.

Tímamót í orkuskiptum

Í tilkynningunni segir að vörubílarnir marki tímamót í orkuskiptum. Tímamótin ryðji braut fyrir sjálfbæra þungaflutninga á Íslandi með það að markmiði að allir þungaflutningar verði á íslensku rafmagni.

Það styðji við endurreiknaða raforkuspá Orkustofnunar frá apríl 2023 en þar er gert ráð fyrir að öll nýskráð ökutæki, meðal annars vörubílar og rútur, verði rafknúin árið 2040.

Ölgerðin, Garðaklettur, Eimskip, Íslandspóstur, GS Frakt, Íslenska gámafélagið, Ragnar og Ásgeir, Húsasmiðjan og Steypustöðin eru þau fyrirtæki sem fá afhenta fyrstu rafmagnsvörubílana.

Boðið verður upp á reynsluakstur í þann 29. apríl.
Boðið verður upp á reynsluakstur í þann 29. apríl. Ljósmynd/Aðsend

Þung ökutæki vega mikið í losun koltvísýrings

Í tilkynningunni segir að um 278 þúsund ökutæki séu í landinu og þar af séu um 18 þúsund rafknúin. Fjögur þúsund jarðefnaeldsneytisökutæki töldust til þungra ökutækja í árslok 2022, um 1,7% af jarðefnaeldsneytisökutækjum á landinu.

Losun ökutækja sé áætluð 128 þúsund tonn af koltvísýringsgildum árið 2022, eða um 14,6% af heildarlosun frá vegasamgöngum. Það sé því til mikils að vinna að rafvæða þungaflutninga.

Einnig kemur það fram að flest verkefni sem varða þungflutninga sé hægt að leysa strax í dag með rafknúnum vörubílum í öllum þéttbýliskjörnum og í allt að 200 km radíus í kringum þá eða á milli.

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is