Það var árið 1974 sem þýski bílaframleiðandinn Porsche kynnti 911 Turbo fyrst til leiks og þótti það marka tímamót hvernig bíllinn sameinaði annars vegar forþjöpputækni kappakstursbílaheimsins og hins vegar eiginleika sportbíls sem nota á til daglegs aksturs.
Hefur Porsche ákveðið að minnast 50 ára afmælis 911 Turbo með ríkulega búinni afmælisútgáfu sem smíðuð verður í 1.974 eintökum.
Í fréttatilkynningu kemur fram að afmælisútgáfan byggi í grunninn á 911 Turbo S og vísar útlitshönnunin til bifreiðarinnar sem Porsche frumsýndi í Frankfúrt árið 1973. Bíllinn er sprautaður í litnum Turbonite, í fyrsta sinn í sögu 911, og liturinn Anthracite Gray notaður á loftvænginn, speglagrunninn og loftinntakið.
Þá setja ýmis skemmtileg smáatriði svip sinn á bílinn, s.s. sérstakur merkimiði á vélarhlífargrillinu og díóðuljós sem varpar mynd af túrbínu á jörðina þegar hurðirnar á bílnum eru opnaðar.
Innréttingin vísar til upprunans og sést það m.a. á notkun McKenzie-áklæðis á sætum. Upplýst Turbo 50-merki úr svörtu burstuðu áli er á hurðalistunum og fyrir ofan hanskahólfið er búið að koma fyrir afmælisskyldi sem þar að auki tiltekur framleiðslunúmer hvers bíls.
911 Turbo 50 er með 3,7 lítra boxer-vél með tvöföldum túrbínum sem skilar 650 hestöflum og 800 Nm hámarkstogi. Bíllinn er aðeins 2,7 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið og nær 200 km/klst á 8,9 sekúndum.
Til að gera sérútgáfuna enn sérstakari gefur Porsche jafnframt út skeiðklukkuúr úr smiðju Porsche Design. Líkt og afmælisbíllinn verður úrið aðeins fáanlegt í 1.974 eintökum og er það einvörðungu ætlað kaupendum bifreiðarinnar.