BL sýnir þriðju kynslóð Dacia Duster

Duster hefur fengið skemmtilega andlitslyftingu með nýju kynslóðinni.
Duster hefur fengið skemmtilega andlitslyftingu með nýju kynslóðinni. Ljósmynd/BL

Á laugardag verður efnt til sýningar á þriðju kynslóð Dacia Duster í sal BL við Sævarhöfða.

Duster, sem hefur verið mest seldi jepplingurinn í Evrópu undanfarin sex ár, kemur nú í fyrsta sinn með „mildri tvinntækni“ og bensínvél, að því er segir í tilkynningu. Þá hefur Dacia gert Dusterinn enn rúmbetri en áður og búið er að uppfæra útlit bifreiðarinnar með skarpari og ögn jeppalegri línum.

BL mun til að byrja með kynna tvær fjórhjóladrifnar gerðir af Duster: Express og Extreme og eru báðar útgáfurnar beinskiptar með 130 hestafla bensínvél og milda tvinntækni (e. mild hybrid) sem gefur meðaleyðslu upp á 6 l/100 km. Í janúar á næsta ári er síðan von á þriðju gerðinni, Duster Extreme Hybrid sem er sjálfskipt, framhjóladrifin og með 141 hestafla bensínvél.

Bifreiðin er hlaðin alls kyns þæginda- og öryggisbúnaði.
Bifreiðin er hlaðin alls kyns þæginda- og öryggisbúnaði.

Koma allar gerðir Duster með leiðsögukerfi á 10 tommu skjá, 3D Arkamys hljóðkerfi, upphituðum framsætum, bakkmyndavél og hraðaskiltalesara svo aðeins séu nokkur atriði nefnd.

Í fréttatilkynningu frá umboðinu kemur fram að meðal nýjunga í Duster eru „You Clip“-festingar í farþegarýminu sem nota má til að hengja upp ýmsa aukahluti, s.s. símafestingar, aukaljós og glasahaldara. „Þá er einnig hægt að fá sérstakan samanbrjótanlegan kassa með Duster sem notaður er til að útbúa svefnpláss fyrir tvo í bílnum,“ að því er tilkynningin segir.

Duster fæst einnig með stigbrettum, upplýstri sílsavörn og svefntjaldi en nýr Dacia Duster kostar frá 5.990 þús. krónum.

Sýningin á laugardag stendur yfir frá 12 til 16.

Upplýsingaskjárinn er 10 tommur og framsætin upphituð.
Upplýsingaskjárinn er 10 tommur og framsætin upphituð.
mbl.is
Loka