Nýskráning fólksbíla árið 2024 dróst saman um 42% samanborið við árið 2023 en alls voru nýskráðir 10.243 nýir fólksbílar á árinu.
Flestir nýskráðir fólksbílar voru rafmagnsbílar og voru þeir meira en 1 af hverjum 4 nýskráðum bílum. Næst algengustu fólksbílarnir voru dísilbílar sem voru um 22% af öllum nýskráningum.
Þá voru algengustu nýskráðu bílategundirnar á árinu Toyota og Kia og áttu flestar nýskráningar sér stað í maí en þá voru alls 2.008 fólksbílar nýskráðir.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Bílgreinasambandinu.
Þar kemur fram að samdrátturinn nái bæði til einstaklinga og fyrirtækja, þar á meðal ökutækjaleiga, en tæplega helmingur nýskráðra fólksbíla á árinu voru skráðir sem bílaleigubílar.
„Einstaklingar voru skráðir fyrir 3.817 nýjum fólksbílum á árinu 2024 sem eru helmingi færri nýskráðir fólksbílar en árið áður þegar þeir voru 7.875. Flestar þessara nýskráninga voru í október sl. en þá voru samtals 465 fólksbílar nýskráðir.
Flestir nýskráðir fólksbílar á einstaklinga voru rafmagnsbílar eða tæplega helmingur. Þar á eftir voru tengiltvinnbílar og hybrid bílar. Algengustu nýskráðu bíltegundir einstaklinga á árinu 2024 voru Toyota og Tesla,“ segir í tilkynningunni.
Segir þar enn fremur að nýskráningum fólksbíla hjá almennum fyrirtækjum (án ökutækjaleiga) hafi dregist saman um 44% og voru samanlagt 1.520 fólksbílar nýskráðir árið 2024, en ári áður voru þeir 2.695.
Þá voru flestir þeirra bíla nýskráðir í desember og algengasta bíltegundin var Toyota.
Bílaleigubílar voru um helmingur allra nýskráðra fólksbíla á árinu. Samtals voru nýskráðir 4.904 bílaleigubílar árið 2024 sem er 30% færri bílar en á fyrra ári. Flestir bílaleigubílar voru nýskráðir í maí sl. og algengustu bíltegundirnar voru Kia og Hyundai.