BL frumsýnir nýjan Isuzu D-Max og Subaru Forester

Framsvipurinn hefur breyst en vaðdýptin er áfram 80 cm.
Framsvipurinn hefur breyst en vaðdýptin er áfram 80 cm. Ljósmynd/BL

Það verður heldur betur nóg um að vera hjá BL á laugardag en þá fer fram sýning á nýjum Isuzu D-Max og Subaru Forester

Nýjasta útfærsla D-Max hefur m.a. fengið nýjan framenda með breiðara og hærra grilli og nýjum aðalljósum. Farþegarýmið hefur líka verið endurhannað og skartar núna 8″ margmiðlunarskjá. Af tæknihliðinni er það að nefna að D-Max kemur t.d. með skynvæddum hraðastilli, rafdrifinni 100% læsingu að aftan, árekstrarvörn og akreinastýringu. Isuzu D-Max mun fást í þremur gerðum: Basic, Lux og Pro, og eru þær allar með 1,9 lítra 163 hestafla dísilvél og sjálfskiptingu, með 80 cm vaðdýpt og 3,5 tonna dráttargetu. Í tilkynningu kemur fram að verðið á nýja D-Max er frá tæplega 9.290 þús. krónum.

Farþegarými Isuzu D-Max er orðið nútímalegra.
Farþegarými Isuzu D-Max er orðið nútímalegra.

Subaru Forester hefur tekið ýmsum tækni- og útlitsbreytingum. Framendinn er orðinn kraftalegri með stærra og breiðara grilli og nýjum ljósabúnaði. Felgurnar hafa stækkað úr 17″ í 18″ og 19″ eftir því hvaða pakka kaupandinn velur. Í tilkynningu segir að hliðarlínur bílsins séu nú mun skarpari og ákveðnari en lægsti punktur er 22 cm eins og í eldri gerðinni.

Í farþegarýminu hefur margmiðlunarskjárinn verið stækkaður en Forester er einnig búinn nýjustu útgáfu hins margverðlaunaða EyeSight-öryggiskerfis sem Subaru hefur þróað.

Subaru Forester e-Boxer Hybrid er með tveggja lítra bensínvél og rafmótor sem saman skaffa 134 hestöfl og 182 Nm tog, og stendur valið á milli Premium-útgáfu á 8.990 þús. kr. annars vegar og Lux-útgáfu á 9.990 þús. kr.

Subaru Forester á sér allstóran aðdáendahóp á Íslandi.
Subaru Forester á sér allstóran aðdáendahóp á Íslandi.
Farþegarými Subaru Forester hefur breyst og m.a. er búið að …
Farþegarými Subaru Forester hefur breyst og m.a. er búið að stækka margmiðlunarskjáinn.
mbl.is