Bandaríski rafbílaframleiðandinn Tesla hefur svipt hulunni af uppfærðri útgáfu af Model Y, en fimm ár eru liðin síðan bifreiðin kom upphaflega á markað. Model Y hefur verið smíðaður í yfir 3,5 milljónum eintaka og náði þeim árangri 2023 að vera mest seldi bíllinn á heimsvísu það árið.
Í tilkynningu frá Tesla segir að verkfræðingar og hönnuðir fyrirtækisins hafi hlustað á ábendingar eigenda við þróun nýja Model Y og hefur áhersla verið lögð á þægindi í akstri, lipurð og tengimöguleika. Nýjungar í undirvagni byggja á endurbótum uppfærðs Model 3 og ytra byrðið hefur verið endurhannað til að draga enn frekar úr loftviðnámi.
Má m.a. þekkja uppfærðu útgáfuna af því að ljósastikurnar að framan og aftan hafa einkennandi útlit og eru þær innblásnar af hönnun Cybertruck og Cybercab. Einnig hefur Model Y fengið nýjar felgur sem hafa enn minni mótstöðu en þær sem áður fylgdu bílnum. Þessu til viðbótar hefur nýrri myndavél verið komið fyrir á framenda bílsins og á hún að veita bílstjóranum betri sýn á umhverfið, í gegnum miðjuskjáinn, og er myndavélin með innbyggðum hreinsi- og hitunarbúnaði sem kemur í veg fyrir móðukennda mynd og afísar myndavélina þegar kalt er í veðri.
Breytingar á smíði og innréttingu Model Y hafa stuðlað að enn hljóðlátari akstri og hefur veghljóð minnkað um 22%, högghljóð um 20% og vindgnauð um 20%. Glerið í rúðunum endurkastar einnig 26% meiri sólarorku og hjálpar til að viðhalda þægilegu hitastigi í farþegarýminu en loftræstikerfið hefur líka verið gert hljóðlátara og skilvirkara.
Framsætin hafa verið endurhönnuð og eru með innbyggða loftkælingu, en í annarri sætaröð hafa beltissylgjur verið gerðar aðgengilegri og höfuðpúðar verið lengdir.
Tesla segir hljóðkerfi Model Y einnig hafa verið endurhannað til að veita enn betri tónlistarupplifun en þökk sé hljóðleiðandi textílefni eru sumir hátalararnir ósýnilegir. Tengigeta bílsins við farsímakerfið hefur líka verið aukin og ætti niðurhal að vera 50% hraðara og sendisvið Model Y 30% lengra.