Bandaríska neytendarannsóknafélagið J.D. Power hefur birt árlegan lista sinn yfir áreiðanlegustu bílaframleiðendurna, og að vanda trónir Lexus á toppi listans. Er þetta þriðja árið í röð sem Lexus mælist með minnstu bilanatíðnina vestanhafs.
Rannsókn J.D. Power fer þannig fram að félagið mælir hversu mörg „vandamál“ koma upp fyrstu þrjú árin sem nýir bílar eru í umferð. Þessi vandamál geta verið bæði meiri háttar og minni háttar, og geta t.d. snúið að villum í hugbúnaði og vandamálum við að tengja snjallsíma við kerfi bílsins eða lítils háttar göllum í smíði.
Tölurnar sýna að fyrir hverjar 100 nýjar Lexus-bifreiðar eru 140 atriði sem hægt er að finna að, en fyrir alla framleiðendur á bandaríska markaðinum var meðaltalið 202 atriði.
Næst á eftir Lexus kemur Buick með 143 vandamál, þá Mazda, Toyota, Cadillac og Chevrolet.
Verst var frammistaðan hjá Volkswagen sem mældist með 285 vandamál á hverja 100 bíla. Mælingin var næstverst hjá Chrysler, þá Jeep, Audi og Land Rover.
J.D. Power vekur athygli á því í skýrslu sinni þetta árið að tíðni vandamála í nýjum bílum hefur farið vaxandi og ekki verið hærri síðan 2009. Mælingin versnaði um 6% á milli ára en þróunina má að miklu leyti skýra með því að alls kyns hugbúnaðarvandamál eru orðin algengari.
Að jafnaði koma upp 8,4 vandamál með Android Auto og 6,3 vandamál með Apple CarPlay fyrir hverja 100 nýja bíla, og að auki 4,6 vandamál tengd blátannartengingu og 2,4 vandamál vegna vandræða með þráðlaust net.
Mæling J.D. Power sýnir líka að hratt hefur dregið úr vandamálum tengdum rafbílum en hins vegar hafa vandamálin orðið tíðari hjá tengiltvinnbílum.