Hjá bílaumboðinu Ísband stendur núna yfir atvinnubílavika þar sem nýjasta lína atvinnubíla frá Fiat er í aðalhlutverki. Þá notar Ísband tækifærið jafnframt til að sýna RAM 3500-pallbíla.
Framboð atvinnubíla hjá Fiat hefur verið tekið í gegn að undanförnu og inniheldur Fiat Professional-línan nú fjölbreytt úrval bifreiða af ýmsum stærðum og gerðum. Í tilkynningu frá Ísband segir að það einkenni atvinnubifreiðar Fiat að hafa mikið flutningsrými, mikla burðargetu og lágan rekstrarkostnað.
Á atvinnubílavikunni verður hægt að skoða og reynsluaka Doblo, Scudo, Ducato-sendibifreið sem og Ducato-vinnuflokkabifreið, en Fiat Professional-ökutækin fást bæði í dísil- og rafmagnsútgáfu, beinskipt eða sjálfskipt. Þá fylgir sjö ára ábyrgð Fiat Professional-sendibílum en átta ára ábyrgð er á rafhlöðunni.
RAM 3500-pallbíllinn verður sýndur bæði óbreyttur og með 35”, 37” og 40”-breytingum. Ísband sérhæfir sig í breytingum og uppsetningum á aukabúnaði fyrir RAM og er, að því er fram kemur í tilkynningu, eina bílaumboð landsins sem sér sjálft um að framkvæma slíkar breytingar.
Á meðan á atvinnubílavikunni stendur verður sýningarsalurinn opinn frá klukkan 10 til 19, fram á föstudag, en venjulegur afgreiðslutími verður á laugardag.