Sportjepplingurinn Hyundai Tucson kom fyrst á markað árið 2004 og hefur notið mikilla vinsælda alla tíð síðan, en á undanförnum 20 árum hafa rúmlega sjö milljón eintök af bifreiðinni verið smíðuð.
Á laugardag efnir Hyundai á Íslandi til sýningar í Kauptúni þar sem haldið verður upp á 20 ára afmæli Tucson með kynningu á sérstakri afmælisútgáfu jepplingsins. Eins og vera ber á bílasýningum að sumri verður gestum einnig boðið upp á pylsur og börnin geta fengið andlitsmálningu.
Í tilkynningu segir að afmælisútgáfan, Hyundai Tucson 20th Anniversary Edition, verði til sýnis í möttum furugrænum lit með svörtum speglum og gluggaköntum og á 19 tommu satíngráum álfelgum. Fáeinir aðrir litir verða einnig í boði í afmælisútgáfunni, sem búin er ríkulegri aukabúnaði en grunngerðin, svo sem svörtum leðursætum með textíl og furugrænum saumi, sérstakri hurðasyllu með afmælismerkinu sem einnig er á höfuðpúðum og utanverðum afturhlera svo nokkuð sé nefnt.
Afmælisútgáfan er búin hljóðkerfi með átta hátölurum auk bassahátalara frá Krell. Bifreiðin er jafnframt með þriggja svæða loftkælingu, upphitanleg og loftræst framsæti, og ökumaður hefur fyrir framan sig tvo 12,3 tommu stafræna skjái: annan fyrir mælaborðið og hinn sem upplýsingasnertiskjá.
Afmælisútgáfa Tucson fæst í aldrifinni sjálfskiptri tengiltvinn-útfærslu með 1,6 lítra og 252 hestafla bensínvél og 63 km drægni á rafhlöðunni einni saman.