Á laugardag verður tekið vel á móti gestum á nýju þjónustuverkstæði Landfara að Álfhellu 15 í Hafnarfirði.
Í tilkynningu kemur fram að nýja þjónustuverkstæðið sé hannað með hliðsjón af auknum kröfum í þjónustu og tækniþróun. Þar verður boðið upp á smurþjónustu fyrir allar gerðir atvinnubíla, viðgerðir, rúðuviðgerðir og rúðuskipti fyrir alla atvinnubíla, viðgerðir og þjónustu við eftirvagna og bilanagreiningar og viðhald fyrir vöru- og hópferðabíla frá Mercedes-Benz og Setra.
Landfari, sem er umboðsaðili Mercedes-Benz vöru- og hópferðabíla á Íslandi, rekur nú þjónustuverkstæði á þremur stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Auk Álfhellu er þjónustuverkstæði og söludeild að Desjamýri 10 í Mosfellsbæ, og vagnaverkstæði í Klettagörðum 4, sem mun flytja í Klettagarða 5 á næstu vikum.
Viðburðurinn á laugardag stendur yfir frá klukkan 11 til 15, en auk þess að geta fengið að virða þjónustuverkstæðið fyrir sér fá gestir tækifæri til að skoða nýjustu atvinnubílana frá Mercedes-Benz og Setra, og verður eActros 600 frumsýndur við þetta tækifæri.
Er eActros 600, öflugasti fjöldaframleiddi rafmagnsvörubíllinn í heiminum núna, að sögn umboðsins, en fulllestaður hefur hann allt að 500 km drægni á einni hleðslu.