Bílabúð Benna segir vinsældir KGM vera að aukast hjá íslenskum bílakaupendum, en í júní var fjöldi nýskráðra bíla það sem af er þessu ári meiri en samanlagðar nýskráningar áranna 2023 og 2024.
Alls hafa 182 KGM-bílar verið nýskráðir á Íslandi á þessu ári og reiknar umboðið með að sú tala endi í 250 áður en árið er á enda. Er þetta besti árangur suðurkóreska framleiðandans á Íslandi síðan 2018 þegar 274 bílar voru nýskráðir inn í landið.
„Við höfum unnið markvisst að því að styrkja stöðu KGM hér á landi með öflugu sölu- og markaðsstarfi, góðri þjónustu og vandaðri kynningu á nýju vörumerki,“ er haft eftir Benedikt Eyjólfssyni, forstjóra Bílabúðarinnar, í tilkynningu frá félaginu. „Það er afar ánægjulegt að sjá árangurinn skila sér í trausti neytenda.“
KGM hét áður SsangYong en nafninu var breytt eftir kaup fyrirtækjasamsteypunnar KG á framleiðandanum. Á síðasta ári var rafbíllinn Torres EVX frumsýndur á Íslandi en að sögn Bílabúðarinnar er hann eini rafbíllinn á íslenska markaðinum sem kemur með milljón kílómetra rafhlöðuábyrgð í allt að tíu ár. Fyrr á þessu ári var Musso-pallbíllinn kynntur aftur eftir tveggja áratuga fjarveru og verða fleiri bílar kynntir til leiks á næstu misserum, þar á meðal rafmagnsútgáfa af Musso-pallbílnum.