Reikna má með að margir vilji leggja leið sína í sýningarsal BL á Sævarhöfða á laugardag en þá verður frumsýndur nýr MGS5 EV.
Um er að ræða rafvæddan sportjeppa með allt að 465 km drægni og kostar bifreiðin frá 3.990.000 kr þegar styrkur frá Orkusjóði hefur verið dreginn frá kaupverði. Í tilkynningu frá BL er vakin athygli á að styrkurinn nemur núna allt að 900.000 kr en lækkar niður í 500.000 kr um áramótin.
MGS5 EV er smíðaður ofan á svokallaðan MSP-undirvagn sem fyrst var kynntur til sögunnar með MG4 árið 2022. MSP-undirvagninn hefur fengið fjölda verðlauna, en hann var sérstaklega hannaður með það í huga að lágmarka þyngd, bæta afköst og hámarka nýtingu rafhlöðunnar.
MGS5 EV er búinn ofurþunnri rafhlöðu af nýrri kynslóð sem á að skila meiri afköstum og lengri endingartíma en eldri kynslóðir, en í minni pakka svo að meira pláss skapast í farþegarýminu. Að sögn BL tekur 28 mínútur að fylla á rahlöðuna úr 10% í 80% ef notast er við DC hraðhleðslu.
MGS5 EV er hlaðinn tækni sem einfaldar akstur og eykur öryggi. Þá er aðbúnaður um borð er eins og best verður á kosið og segir BL gott rými fyrir bæði fætur og höfuð ökumanns og farþega. Farangursrýmið er 453 l að stærð, en fer upp í 1.441 l þegar bökin á öftustu sætaröðinni hafa verið felld niður.
Frumsýningin á laugardag stendur yfir frá kl. 12 til 16.