Mercedes-Benz Trucks kynnti á dögunum nýjan rafknúinn vörubíl, eActros 400, sem byggir á sömu tækni og eActros 600. Í tilkynningu frá Landfara segir að með þessu vilji framleiðandinn auka úrval sitt af rafvörubílum sem mætt geta kröfum fyrirtækja sem vilja byggja upp sjálfbæra flutninga. Verður eActros 400 í boði ýmist sem dráttarbíll eða grindarbíll, rétt eins og eActros 600. Þá er drægni eActros allt að 400 km skv. WLTP-staðli.
Í tilkynningu kemur þó fram að með flutningskassa sem er sérhannaður fyrir hefðbundna notkun í dreifingarakstri geti eActros 6x2 ekið allt að 480 km á einni hleðslu, ef miðað er við hálfan farm og 20°C umhverfishita.
Tveir LFP-rafhlöðupakkar eru í eActros 400, hvor um sig með 207 kWst af orku eða samanlagt 414 kWst. Aftur á móti er eActros 600 með þrjá rafhlöðupakka með 621 kWst uppsetta rafhlöðugetu, og uppgefin drægni því 500 km og rúmlega það ef aðstæður og aksturslag leyfa. Segir landfari að í hefðbundnum landflutningum nái eActros 600 allt að 560 km drægni með 40 tonna heildarþyngd, ef rétta samsetningin er valin.
Fæst eActros bæði með svokölluðu L-húsi, með lægri inngöngu fyrir ökumann, og hins vegar ProCabin-húsi sem hannað hefur verið til að lágmarka loftmótstöðu en um leið hámarka þægindi um borð.
Í tilkynningu er haft eftir Eiríki Þór Eiríkssyni, framkvæmdastjóra Landfara, að reynslan af fyrstu eActros bílunum á Íslandi hafi verið mjög góð. „Drægni hefur staðist allar væntingar og rekstraraðilar eru hæstánægðir með útkomuna,“ segir hann og bætir við að eActros 400 muni auka breiddina í vöruframboðinu og höfða til fleiri viðskiptavina – ekki síst þeirra sem fást við dreifingu á höfuðborgarsvæðinu.