Sendibíllinn Kia PV5 Cargo hlaut á dögunum viðurkenningu Heimsmetabókar Guinness fyrir „lengstu vegalengd sem léttur rafknúinn atvinnubíll hefur ekið með hámarksfarm á einni hleðslu“.
Dreif PV5 nákvæmlega 693,38 km áður en rafhlaðan tæmdist, en um var að ræða svokallaða Cargo Long Range-útgáfu af bílnum sem er með 71,2 kWst-rafhlöðu og 665 kg farm. Í tilkynningu frá Öskju segir að metið hafi verið slegið 30. september við venjulegar akstursaðstæður á þjóðvegum norðan við Frankfurt í Þýskalandi.
Nánar tiltekið var ekið eftir 58,2 km hringleið, í hefðbundinni umferð, en á leiðinni þurfti m.a. að aka um hringtorg og stoppa við umferðarljós, og var hækkunin á leiðinni 370 metrar. Tókst PV5 Cargo að ljúka hringnum tólf sinnum.
Fulltrúar frá mælinga- og tæknifyrirtækjunum TÜV Hessen og Buck Vermessung fylgdust með hleðslu, þyngd og öllum skráningum. Ferðin var tekin upp með GPS og myndavélum innan í bílnum. Rafhlaðan var hlaðin í 100% og innsigluð fyrir brottför.
Í tilkynningu Öskju kemur fram að PV5 Cargo bjóði upp á allt að 4,4 rúmmetra farangursrými og burðargetu upp að 790 kg, auk þess sem hægt sé að velja milli 51,5 kWst, 71,2 kWst og væntanlegrar 43,3 kWst-rafhlöðu eftir þörfum notenda. Er 71,2 kWst-útgáfan núna komin í forsölu á Íslandi og er væntanleg til landsins í desember.