Lesandi leitar hér ráða vegna Ford Rangers sem er með gasdempurum að framan sem eru stillanlegir. Þeir virðast gerðir fyrir þyngri bíl því þeir eru allt of stinnir í mýkstu stillingu, segir bréfritari.
Lesandi leitar hér ráða vegna Ford Rangers sem er með gasdempurum að framan sem eru stillanlegir. Þeir virðast gerðir fyrir þyngri bíl því þeir eru allt of stinnir í mýkstu stillingu, segir bréfritari.
Toyota V6 bensín: Fastir stimpilhringir? Spurt: Ég er með 4runner V6 af árg. '92 sem hefur reynst mér frábærlega og ég vil gjarnan halda við. Fyrir ári gaf sig heddpakkning. Gert var við á viðurkenndu verkstæði þ.e.

Toyota V6 bensín: Fastir stimpilhringir?

Spurt: Ég er með 4runner V6 af árg. '92 sem hefur reynst mér frábærlega og ég vil gjarnan halda við. Fyrir ári gaf sig heddpakkning. Gert var við á viðurkenndu verkstæði þ.e. skipt um pakkningar og heddin yfirfarin. Til að gera langa sögu stutta þá hefur vélin aldrei gengið almennilega síðan. Eftir að hafa reynt að finna þessa bilun í heilt ár kom loks í ljós að vélin sýndi enga þjöppun á einum sílindra. Niðurstaðan nú er sú að það séu fastir stimpilhringir á einum stimpli. Kannt þú einhver ráð til að losa hringina án þess að rífa stimpilinn úr? Þetta er þegar búið að kosta hátt í 400 þús. kr. og gangurinn í bílnum er verri en hann var með bilaða heddpakkningu fyrir ári.

Svar: Þar sem heddin voru tekin af fyrir ári ætti að mega ganga út frá því sem vísu að ekki sé gat í stimpilkollinum á þessum eina sem ekki þjappar og jafnframt að ventlarnir séu þéttir. Þá eru 3 mögulegar orsakir fyrir gangtrufluninni: Ónýtur kertaþráður á viðkomandi sílindra (ótrúlegt, en ég veit dæmi þess að gleymst hafi að mæla neista í svona tilfellum). Brotnir eða fastir stimpilhringir. Það er enginn galdur til sem leysir svona vandamál. Ég myndi reikna með því að hagkvæmasta lausnin, þegar öllu er á botninn hvolft, sé að taka stimpilinn úr (mig minnir að pönnuna sé hægt að losa án þess að taka vélina úr bílnum). En með aldur bílsins í huga og „fyrri störf“ (400 þús. kr.) myndi ég prófa eftirfarandi (birt án ábyrgðar):

Hitaðu vélina í vinnsluhita. Aftengdu háspennuþráðinn úr toppi háspennukeflisins.

Losaðu kertið varlega úr viðkomandi sílindra. Mældu þjöppuna með inngjöfina í botni og skráðu.

Hafðu stimpilinn sem nemur um fjórðungs snúningi á sveifarási fyrir neðan toppstöðu (þreifar stöðu kollsins með grönnu skrúfjárni).

Úðaðu heilum brúsa af PROLONG-ryðolíu (fæst m.a. hjá Vöku) inn um kertagatið og láttu vélina óhreyfða þannig í sólarhring.

Tappaðu 2 lítrum af smurolíu af pönnunni og fylltu í staðinn með 2 lítrum af sjálfskiptiolíu.

Með háspennukeflið aftengt – notaðu startarann til að láta sílindrann hvæsa rækilega áður en þú setur hreint kerti í. Gangsettu vélina með lágmarksinngjöf.

Aktu bílnum á nokkrum dögum sem nemur 200 km akstri. Því oftar sem vélin hitnar og kólnar því betra!

Sértu ljónheppinn skilar þessi aðgerð mælanlega hærri þjöppun. Þá skaltu endurnýja síu og smurolíu með alsyntetískri olíu, 10W30 (Valvoline hjá Poulsen er ódýrust). og möguleiki er á að vélin sé farin að ganga eðlilega eftir um vikunotkun.

Stillanlegur Koni-dempari

Spurt : Keypti gamlan Ford Ranger pallbíl og fékk hann með nýlegum Koni-gasdempurum að framan sem eru stillanlegir. Þeir virðast gerðir fyrir þyngri bíl því þeir eru allt of stinnir í mýkstu stillingu. Er hægt að endurbyggja þessa Koni-dempara þannig að þeir verði mýkri?

Svar: Nei, – það er ekki hægt að fá gasdempara frá Koni endurbyggða. Það gildir einungis um vökvademparana, a.m.k. hérlendis. Í Ford Ranger (1981-1994) eru framdempararnir lóðréttir milli grindar að ofanverðu og neðri klafa. Þú getur ef til vill notað þessa gasdempara, þ.e.a.s. gert verkun þeirra mýkri, með því að færa efri festinguna aftar á grindina þannig að demparinn hallaði aftur frá lóðlínu, að ofanverðu, sem næmi 10-15°.

Ábending

Rangt eldsneyti – hvað þá?

Nógu ergilegt (og dýrt) er að uppgötva, í miðjum klíðum, að verið sé að dæla röngu eldsneyti á bílinn þótt það komi ekki í ljós fyrr en vélin hefur, ofan í kaupið, skemmst eftir akstur. Hvað getur gerst hafi bensíni óvart verið dælt á diesel-bíl eða öfugt? Talsvert rými þarf til að svara þessari spurningu svo vel sé. Því er svar að finna á vefsíðunni www.leoemm.com (Gagnabanki) auk þess sem það mun birtast hér seinna.

Leó M. Jónsson véltæknifræðingur leoemm@simnet.is (Ath. Bréf geta verið stytt. Eldri spurningar og ítarlegri svör eru birt á www.leoemm.com)