„Eftir að hafa trassað að endurnýja kerti og kertaþræði í Renault Megané þannig að vélin var hætt að ganga á öllum kviknaði bilunarljósið. Þótt kertin og þræðirnir væru endurnýjuð lýsir ljósið eftir sem áður og gangurinn í vélinni er leiðinlegur.“
„Eftir að hafa trassað að endurnýja kerti og kertaþræði í Renault Megané þannig að vélin var hætt að ganga á öllum kviknaði bilunarljósið. Þótt kertin og þræðirnir væru endurnýjuð lýsir ljósið eftir sem áður og gangurinn í vélinni er leiðinlegur.“ — Morgunblaðið/Ásdís
Súrefnisskynjari hreinsaður Spurt: Eftir að hafa trassað að endurnýja kerti og kertaþræði í Renault Megané þannig að vélin var hætt að ganga á öllum kviknaði bilunarljósið.

Súrefnisskynjari hreinsaður

Spurt: Eftir að hafa trassað að endurnýja kerti og kertaþræði í Renault Megané þannig að vélin var hætt að ganga á öllum kviknaði bilunarljósið. Þótt kertin og þræðirnir væru endurnýjuð lýsir ljósið eftir sem áður og gangurinn í vélinni er leiðinlegur. Bilunarkóðinn segir að súrefnisskynjari framan við hvarfa sé óvirkur. Er hægt að hreinsa svona súrefnisskynjara (4 leiðslur) eða verður að endurnýja hann?

Svar: Sé skynjarinn óvirkur vegna sóts/smurolíu má reyna að hreinsa hann. Þvoðu mestu óhreinindin af með bensíni og tannbursta. Boraðu gat í sítrónu og stingdu skynjaranum í hana og láttu standa á heitum miðstöðvarofni yfir nótt. Skolaðu svo skynjarann með volgu vatni og skrúfaðu hann á sinn stað. Breytist gangurinn skyldi ekki koma á óvart þótt bilunarljósið hætti að lýsa eftir að vélin hefur náð fullum hita.

Peugeot 406 sem höktir

Spurt: Ég er með Peugeot 406,1,8 l (bensín) árg. 2002. Undanfarna mánuði hefur verið hvimleitt hökt í vélinni þegar ekið er með litlu álagi eða þegar slegið er af. Lausagangurinn er ekki stöðugur. Fyrir um hálfu ári var háspennukeflið endurnýjað en það gamla bilaði með þeim afleiðingum að útblásturskerfið fór illa. Nokkru seinna hófst þetta hökt í vélinni. Pústkerfið með hvarfa hefur verið endurnýjað sem liður í bilanagreiningu og viðgerð hjá umboði en skilaði ekki öðru en kostnaði. Hvað gæti valdið þessari gangtruflun ?

Svar: Byrjaðu á því að útiloka rakamettun í bensíni með því að setja 100-200 ml af isoprópanóli (fæst í apótekum) í fullan bensíngeymi. Jafnvel þótt það breyti engu er forvörn fólgin í isoprópanóli. Oft þegar um er að ræða gangtruflanir sem ekki skila bilunarkóða/ljósi er orsökin sogleki. Rekja og yfirfara þarf allar soglagnir sem tengjast soggrein og lagfæra lausa enda/múffur og endurnýja skemmdar slöngur. Algengur sogleki er t.d. með endum slöngunnar sem tengist bremsukútnum. Annar algengur sogleki er með óþéttri ventlalokspakkningu (léleg pakkning eða laust lok). Í inngjafarkverkinni eru örlítil göt sín hvorum megin við inngjafarspjaldið. Þegar óhreinindi setjast í kverkina og á spjaldið geta götin stíflast og við það verður lausagangur ójafn og hökt myndast við inngjöf. Þetta er auðvelt að þrífa með spritti og listmálarabursta. Þú getur fengið aðstoð við þetta á smurstöð, t.d. á Olís-smurstöðinni í Sætúni 4.

Ljósin eru skylda

Spurt: Er ennþá skylda að nota ökuljós um hábjartan dag? Ég heyrði að samkvæmt EES-reglum væri ekki hægt að skylda þetta.

Svar: Samkvæmt upplýsingum frá Einari Magnússyni hjá Umferðarstofu er ljósaskylda í umferðarlögunum. Hins vegar er ekki lengur skylt að hafa sjálfvirkan dagljósabúnað við nýskráningu. Ökuljós skal því nota í akstri.

Leó M. Jónsson véltæknifræðingur leoemm@simnet.is (Ath. Bréf geta verið stytt. Eldri spurningar og ítarlegri svör eru birt á www.leoemm.com)

Ábending

Brennisteinn í dísel- og steinolíu

Frá og með árgerð 2005 eru díselbílar með platínu/áloxíð-hvarfa í útblásturskerfi til að draga úr mengun með oxun. Skilyrði þess að hvarfi virki við déselvél er að eldsneytið sé brennisteinssnautt (low sulphur fuel). Brennisteinssnauða díselolíu þarf að efnabæta til að tryggja smureiginleika hennar. Steinolía inniheldur margfalt magn brennisteins á við díselolíu og því er ekki hægt að nota hana sé hvarfi í útblásturskerfinu.